Menntun eflir sjálfstraust starfsfólks og skapar verðmætari vöru

31. október 2014

Unnið hefur verið að viðamiklum breytingum hjá sjávarútvegsfyrirtækinu FISK-Seafood á Sauðárkróki undanfarin misseri. 

Jón Eðvald Friðriksson, framkvæmdastjóri FISK-Seafood, segir að vegna þessara miklu breytinga í landvinnslu og útgerð sé nauðsynlegt að huga vel að menntun alls starfsfólks. Fyrirtækið hefur því, í samstarfi við Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Farskólann og Fisktækniskóla Íslands í Grindavík, þróað nám í fisktækni og hófst kennsla í haust. Guðrún Sighvatsdóttir, skrifstofustjóri FISK, segir þetta mikið gleðiefni. „FISK hefur yfir að ráða miklum mannauði, hjá fyrirtækinu er fólk sem starfað hefur í áratugi og býr yfir mikilli fagþekkingu. Mikið hefur vantað á að samfélagið sýndi þessari mikilvægu atvinnugrein okkar næga virðingu í umræðunni og er það meðal annars þess vegna að FISK hefur áhuga á að fólk í fiskiðnaði fái viðurkenningu á sinni þekkingu. Þetta er ástæða þess að við hvetjum okkar fólk til þessa náms og trúum því að við námslok höfum við enn betra starfsfólk með aukið sjálfstraust sem sé stolt af því að vinna í sjávarútvegi," segir Guðrún.

FISK hefur verið framarlega þegar kemur að nýsköpun og menntun enda er óhætt að segja að starfsemin innan veggja fyrirtækisins sé býsna fjölbreytt. Þar hafa tæknifyrirtækin 3X og Skaginn ehf. meðal annars unnið að því að þróa vinnslubúnað til að kæla fisk um borð í veiðiskipum án íss og krapa en þróunarvinnan er unnin í samstarfi við Matís og Ice Protein á Sauðárkróki. Verið er að byggja þurrkverksmiðju sem mun auka gæði þurrkaðra afurða til mikilla muna og flýta framleiðsluferlinu. Jafnframt á FISK dótturfyrirtæki, sem sérhæfir sig í rannsóknum og þróun er snúa að eftirliti og auknum gæðum og að staðla framleiðsluna sem mest. Nú eru í gangi rannsóknir og þróun til að ná hámarks nýtingu hráefnis FISK-Seafood, meðal annars með aukinni verðmætasköpun úr hliðarhráefni og bættri umgengni við náttúruauðlindir. Þrír starfsmenn hafa verið ráðnir til þessa rannsókna- og þróunarfyrirtækis á þessu ári, sem allir hafa mismunandi bakgrunn hvað menntun varðar. Einn er næringarfræðingur og doktor á því sviði, annar er efnaverkfræðingur og sá þriðji er að ljúka líftækninámi við háskóla. Þá hefur fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum haft afnot af kennslu- og rannsóknaraðstöðu hjá fyrirtækinu án endurgjalds undanfarin ár.

Slík stefnu- og áherslubreyting í rekstri FISK-Seafood ehf. kallar á miklar fjárfestingar og endurnýjun framleiðslutækja til lands og sjávar. Áhersla á rannsóknir og þróun í fyrirækinu útheimtir þolinmæði og langtímahugsun og að sjálfsögðu mikið fjármagn, bæði hvað varðar tækjabúnað og þjálfun og menntun starfsfólks. Fyrirtækið hlaut fyrr á árinu forvarnaverðlaun VÍS en eins og nafnið gefur til kynna eru þau verðlaun veitt fyrir framúrskarandi öryggis- og forvarnamál. Í greinargerð VÍS kom fram að FISK-Seafood væri fyrirmyndardæmi um hve miklum árangri hægt er að ná í að efla forvarnir og öryggismál fyrirtækja þegar yfirstjórn sýnir þeim málaflokki raunverulegan og sýnilegan stuðning.

Viðburðir