Máttur matarins

Hagsmunamál fyrir heilsu hins almenna neytanda og samfélagið í heild að fiskur komi inn á eldhúsborðið
28. maí 2017

Dr. Guðmundur Freyr Jóhannsson læknir og framkvæmdastjóri Icelandic Health Symposium fjallaði í erindi sínu um mátt matarins. Íslenskur fiskur ásamt öðrum sjávarafurðum er margrómaður fyrir gæði og hreinleika og benda rannsóknir til að magn þungmálma og þrávirkra efna sé mjög lítið á helstu fiskimiðum við landið. 

Í erindi Dr.Guðmundar kom fram að  vísindaheimurinn hefði verið á villigötum og ofmetið skaðleg heilsufarsleg áhrif mettaðrar fitu. Skaðsemin liggur mun frekar í sykri, unnum kolvetnum og omega-6 jurtaolíum. Sala á þeim matvælum muni dragast saman eða standa í stað en sigurvegararnir verða einkum egg, mjólkurvörur, rautt kjöt og auðvitað fiskur . Allir eru sammála um að sjávarafurðir, einkum þær sem eru ríkar af fjölómettuðum omega-3 fitusýrum, hafa margvísleg jákvæð heilsufarsleg áhrif, ekki síst á hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum.  Svokallað Miðjarðarhafsmataræði er að ryðja sér til rúms og virðist ákjósanlegt fyrir flesta, en þar er meðal annars lögð rík áhersla á neyslu fiskmetis. Eftirspurnin eftir þessum vörum mun því aukast til muna á næstu áratugum. Íslenskur fiskur og aðrar sjávarafurðir eru margrómaðar fyrir gæði og hreinleika og benda rannsóknir til að magn þungmálma og þrávirkra efna sé mjög lítið á helstu fiskimiðum við landið. Þetta atriði mun að öllum líkindum skipta töluverðu máli í heildarsamhenginu þegar rætt verður um aukna neyslu sjávarafurða. Mögulega eru næstu ár og áratugir þeir mikilvægustu í langan tíma fyrir íslenskan sjávarútveg. Það er því mikilvægt fyrir iðnaðinn að stíga á þessa öldu sem er að koma, viðhalda vörumerkinu og tryggja stöðuna á hinum alþjóðlega sem og innlenda matvælamarkaði. En það er ekki síður hagsmunamál fyrir heilsu hins almenna neytanda, heilbrigðiskerfið og samfélagið í heild að fiskur og annað hágæða íslenskt sjávarfang komi sterkt inn á eldhúsborðið, ekki síst ef það er fengið á sjálfbæran og vistvænan hátt.

Erindi Guðmundar má nálgast hér: Máttur matarins_Fiskur og heilsa.pdf

Viðburðir