Sigurjónsstyrkur - Stefán Þór Eysteinsson

Maður lærir að bera virðingu fyrir hafinu og verðmætum þess
8. júní 2015

Nýverið hlaut Stefán Þór Eysteinsson, 28 ára austfirðingur Sigurjónsstyrk Rannsóknarsjóð síldarútvegsins. Stefán stefnir að því að meta skaðsemi rauðátu við vinnslu uppsjávarfiska og hvernig best sé að stýra vinnslu og geymslu afurða. Einnig verða áhrif rauðátu á mjöl- og lýsisvinnslu rannsökuð. Þess utan verða eiginleikar átunnar rannsakaðir og hvort nýta megi hana á einhvern hátt. 

Starfsfólk SFS er himinifandi að til sé ungur maður á landinu með slíkan áhuga á rauðátu og ákvað að slá á þráðinn og forvitnast aðeins meira um Stefán Þór, verkefnið og hvað er framundan. Lesa má meira um verkefnið og aðra handahafa styrkja úr Rannsóknarsjóði síldarútvegsins hér.


Fullt nafn: Stefán Þór Eysteinsson.

Aldur: 28 ára.

Giftur/sambúð: Í sambandi.

Börn: Barnlaus.

Menntun: Lauk prófi í líffræði frá Gonzaga University og er að klára Msc. gráðu frá HÍ í matvælafræði. Næsta skref er svo doktorsnám.

Í hverju varstu/ertu lélegastur í skóla: Olli fáum kennurum jafn miklum vonbrigðum ár eftir ár eins og ég gerði myndmenntakennaranum mínum.

Hvaða reynslu hefur þú af sjávarútvegi: Það er alltaf ákveðin reynsla að alast upp í sjávarplássi enda snýst mikið hér um sjávarútveg. Utan þess þá starfaði ég eitt sumar í bolfisksvinnslu sem og hálft ár í fiskimjölsverksmiðju.

Hefurðu verið til sjós: Nei hef því miður aldrei náð því. Hef komist næst því með því að fara út á sjó með afa mínu á Siglufirði á gamla bátnum hans.

Ert þú næsti Sigurjón Arason?


"Það er bara einn Sigurjón Arason. Það er varla raunhæft fyrir einn mann að ætla að áorka því sem hann hefur náð að gera fyrir sjávarútveginn"

Ert þú næsti Sigurjón Arason: Það er bara einn Sigurjón Arason. Það er varla raunhæft fyrir einn mann að ætla að áorka því sem hann hefur náð að gera fyrir sjávarútveginn.

Hvað er draumastarfið, hvar sérðu sjálfan þig eftir 5 ár: Það að kenna og miðla þekkingu hefur alltaf heillað mig. Vonandi verð ég kominn í aðstöðu til að gera einmitt það þegar mínu námi lýkur.

Unnið í vinnslu: Vann heilt sumar við bolfisksvinnslu  

Hvaða þýðingu hefur styrkurinn fyrir þig: Þetta er fyrst og fremst frábært tækifæri til að skoða eitthvað sem ég hef mikinn áhuga á. Án hans er afar hæpið að það hefði orðið að þessu verkefni.

Hvað geturðu sagt okkur um verkefnið: Við ætlum að einbeita okkur að rauðátunni og þeim vandamálum sem hún veldur við vinnslu uppsjávarfiska. Við viljum í raun fara inn í þetta verkefni með opin huga og sjá hvort við getum nýtt okkur rauðátuna og mögulega skapað einhver verðmæti.

Af hverju rauðáta: Fyrst og fremst vegna þess að hún er vandamál sem ekki er hægt að komast hjá, hún kemur í vinnslur sama hvaða skoðun menn hafa á henni. En hún er sjálf einnig gífurlega áhugaverð og verður fróðlegt að kortleggja eiginleika hennar.

Af hverju sjávarútvegur: Fyrir mig var það aldrei nein spurning. Það er ómetanleg reynsla að alast upp í sjávarplássi og maður lærir að bera virðingu fyrir hafinu og verðmætum þess. Það er svo margt sem við getum bætt þegar það kemur að sjávarútvegi og svo margt sem við eigum eftir að læra, það eru í raun óendanlegir möguleikir í boði.

Viðburðir