Loðnan er vítamínsprauta í íslenskt efnahagslíf

13. febrúar 2015

Miklar sveiflur og fjárfrekar veiðar             

Miklar sveiflur eru í stofnum uppsjávartegunda eins og síld og loðnu. Sveiflur í veiði uppsjávartegunda eru m.a. vegna þess að þær eru sérstaklega viðkvæmar fyrir breytingum í hafinu eins og hitastigi þess og hafstraumum. Fáir gleyma því þegar síldin eða silfur hafsins, eins og hún hefur oft verið nefnd, hvarf í lok 7. áratugarins. Það hafði skelfilegar afleiðingar en mikill fjöldi fólks fluttist úr landi og snéri aldrei aftur vegna slæms efnahagsástands. En sem betur fer er íslenskt efnahagslíf betur í stakk búið í dag til að glíma við óvæntar breytingar í hafinu þar sem hagkerfið á Íslandi er orðið fjölbreyttara og ekki eins háð einstökum fisktegundum og áður.

Loðnustofninn er engin undantekning, en miklar sveiflur hafa einkennt stofninn. Síðastliðin 20 ár hefur loðnuaflinn verið rúmlega 700 þúsund tonn á ári en hæst fór aflinn á því tímabili í um 1,6 milljónir tonna fiskveiðiárið 1996/97 og lægst í 15 þúsund tonn árið 2008/2009, þar sem ekkert sást til loðnunnar og erfitt var að meta stærð stofnsins. Því fylgir uppsjávarveiðum mikil óvissa og verða síldin og loðnan seint kallaðar fyrirsjánalegar tegundir. Þá eru uppsjávarveiðar fjárfrekar þar sem sérhæfðan búnað þarf bæði til veiða og vinnslu og eins fæst aflinn oft langt frá landi og því fylgir mikill olíukostnaður.  Áhætta vegna fjárfestinga í uppsjávarveiðum er því mikill vegna sveiflna í stærð stofnanna.  Nýsmíði uppsjávarskips kostar allt að 4 milljarða króna. Að koma upp frystihúsi kostar  allt að 8 milljarða og fjárfesting í nýrri fiskimjölsverksmiðju má áætla um 5 milljarða króna, en stærstur hluti loðnuaflans fer í mjöl. Það eru góðar fréttir að  heildarkvóti loðnu fyrir fiskveiðiárið 2014/15 sé 580 þúsund tonn, þótt það magn sé undir meðaltali síðastliðinna 20 ára, en loðnukvótinn hefur verið lítill undanfarin ár.

Vítamínsprauta inn í íslenskt efnahagslíf

Nýleg ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar um aukningu í loðnukvóta er mikið fagnaðarefni,  en stofnunin leggur til að loðnukvóti verði aukinn sem nemur um 320 þúsund tonn. Eftir markvissa loðnuleit Hafrannsóknarstofnunar og uppsjávarskipsins Birtings frá Neskaupstað var stærð  hryggningarstofns metin þokkaleg miðað við undangengin ár, sem minnir okkur á mikilvægi hafrannsókna. Þó svo að vægi sjávarútvegsins hafi minnkað nokkuð undanfarna áratugi er aukning loðnukvótasns mikil lyftistöng fyrir íslenskt efnahagslíf þar sem áætlað er að útflutningstekjur muni aukast um 20 - 25 milljarða, að því gefnu að veiðar gangi vel. Áhrif aukinna veiða munu m.a. koma fram í sterkari krónu. Eins hefur þessi aukning bein áhrif á ríkiskassann en áætluð veiðigjöld vegna loðnukvóta Íslendinga nema um 1,6 milljarði króna.

Áætlað er að laun og launatengd gjöld muni hækka sem nemur 3,5 – 4 milljörðum með tilheyrandi eftirspurnaráhrifum, að því gefnu að það takist að veiða úthlutað magn. Því er óhætt að fullyrða að aukning í loðnukvóta sé algjör vítamínsprauta inn í íslenskt efnahagslíf. Mikið liggur því undir á yfirstandandi loðnuvertíð og því þarf veðrið og loðnan að vinna með okkur svo það náist að veiða leyfilegt magn, en loðnan mun brátt mæta örlögum sínum þar sem nú fer að styttast í hrygningu hennar.

Ævintýrilegar sveiflur


Miklar sveiflur fylgja loðnustofninum en heildarafli hefur verið að meðaltali 700 þúsund tonn samkvæmt Hafrannsóknarstofnun.

*Útgefinn heildarafli skv. ráðgjöf hafrannsóknarstofnunar.

Viðburðir