Landtenging skipa afar hagkvæm

Sigurlið Hnakkaþonsins ræddu tillögur á Rás 1
27. janúar 2016
Kostnaður við búnað um borð í togara svo hann geti notað rafmagn úr landi í stað ljósavélar, knúinnar með olíu, greiðist upp á hálfu öðru ári. Ávinningurinn er því bæði á hinu umhverfislega sviði og hinu efnahagslega. 
Þetta var niðurstaða nemenda í sigurliði Hnakkaþonsins 2016 við Háskólann í Reykjavík. Í tillögu þeirra setti liðið fram áætlun um hvernig sjávarútvegsfyrirtækið, Þorbjörn hf í Grindavík gæti aukið rafmagnsnotkun á línubátum félagsins og togara, bæði á veiðum og við bryggju. Tillögu liðsins má kynna sér hér. 

Hnakkaþonið er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Samtaka fyrirtækja í sjávarúrvegi sem býður nemendum að taka þátt í samkeppni um lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Sigurvegarar í ár eru fimm nemendur í vél og orkutækni,viðskiptafræði og lögfræði, Guðjón Smári Guðmundsson, Ingi Svavarsson, Hjálmar Óskarsson, Margrét Lilja Hjaltadóttir og Hrönn Vilhjálmsdóttir. Verkefni þeirra fólst í að setja fram hugmyndir um hvernig mætti gera Þorbjörn hf að grænna fyrirtæki og þau lögðu til grundvallar Parísarráðstefnuna um loftslagsmál, þar sem teknar voru ákvarðanir um skref til lækkunar á losun gróðurhúsalofttegunda.  Nemar í liðinu ræddu niðurstöður sínar í Speglinum á Rás 1 í vikunni. 

Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, sagði við verðlaunaafhendinguna að verkefni Hnakkaþonsins þetta árið hafi verið mjög krefjandi. Þátttakendur þurftu að leggja fram tillögur um breytingar á starfsemi Þorbjarnar hf. sem leiddu til minni losunar koltvísýrings og aukinnar hagkvæmni í rekstri. „Nemendur leystu þetta verkefni með miklum sóma og þær tillögur sem komu fram voru bæði fjölbreyttar og mjög gagnlegar. Dómnefndinni var því vandi á höndum en að lokum varð niðurstaðan engu að síður samhljóða.“

Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar segir: „Það er mikilvægt að efla tengsl milli háskóla og atvinnulífs auk þess sem fyrirtækið hefur ávinning af því að fara yfir sín mál á skipulegan hátt. Það var mikill fengur í því að hlýða á spurningar nemenda og tillögur og virkilega gaman að sjá hvað nemendur voru áhugasamir og virtust ná prýðilegum skilningi á mörgum tæknilegum málum á skömmum tíma.“

Í Hnakkaþoni HR og SFS reyna nemendur HR með sér í lausn verkefna sem tengjast íslenskum sjávarútvegi. Áskorun Hnakkaþonsins að þessu sinni varðaði eitt mikilvægasta viðfangsefni samtímans, loftslagsmál, í kjölfar tímamótasamkomulags ríkja heims í París á síðasta ári. Þátttakendur í Hnakkaþoninu fengu afhent ítarleg gögn um starfsemi Þorbjarnar hf. í Grindavík, sem dæmi um íslenskt útgerðarfyrirtæki. Alls skiluðu 12 lið inn fjölbreyttum tillögum.

Í dómnefnd Hnakkaþons 2016 sátu: Ari Kristinn Jónsson, rektor HR; Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair; Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips; Þóranna Jónsdóttir, forseti viðskiptadeildar HR; Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands; Heiðar Hrafn Eiríksson, skrifstofustjóri Þorbjarnar; Ketill Berg Magnússon, framkvæmdastjóri FESTU, Miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja og Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri SFS.


Sigurliðið í ár skipuðu nemendur í vél- og orkutæknifræði, viðskiptafræði og lögfræði við HR, þau Guðjón Smári Guðmundsson, Ingi Svavarsson, Hjálmar Óskarsson, Margrét Lilja Hjaltadóttir og Hrönn Vilhjálmsdóttir. Þau eru á leið á stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku, í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Sigurliðið í ár skipuðu nemendur í vél- og orkutæknifræði, viðskiptafræði og lögfræði við HR, þau Guðjón Smári Guðmundsson, Ingi Svavarsson, Hjálmar Óskarsson, Margrét Lilja Hjaltadóttir og Hrönn Vilhjálmsdóttir. Þau eru á leið á stærstu sjávarútvegssýningu N-Ameríku, í Boston í mars, í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Viðburðir