Mistök geta kostað mannslíf

Öryggisbúnaður um borð í skipum
5. nóvember 2015

Í vikunni sökk sanddæluskipið Perla við Reykjavíkurhöfn. Í tilefni þess skrifaði Vigri Bergþórsson, sjómaður frá Grindavík, þarfa ádrepu á Facebook-síðu sína um öryggismál um borð í skipum.

„Skipið var búið sjálfvirkum sleppibúnaði sem á undir öllum kringumstæðum að skjóta björgunarbátunum út ef skipið sekkur. Björgunarbáturinn situr ennþá sem fastast í sætinu sínu og skaust ekki út sem skildi. Fyrr í sumar gerðist þetta sama atvik einnig er dragnótabáturinn Jón Hákon BA sökk á vestfjörðum, hann var einnig búinn sjálfvirkum sleppibúnaði sem átti að skjóta bátunum út, meira að segja frá tveimur mismunandi framleiðendum, það er búið að kafa eftir flakinu og þar situr annar björgunarbáturinn ennþá í sætinu sínu en hinn við hlið hans óuppblásinn. Í því slysi fórst einn maður.

Eftir atvikið á Jóni Hákoni BA hafa þrjú sjómannasamtök barist fyrir því að báturinn verði sóttur af hafsbotni og rannsakað verði ástæðuna fyrir því að báturinn sökk og hvers vegna björgunarbátarnir losnuðu ekki en það hefur lítinn árangur borið því það hefur ekki verið reynt að ná flakinu upp.

Það er einfaldlega til háborinnar skammar að það þurfi að berjast fyrir því að þetta mál verði rannsakað, að þessi mikilvægi öryggisþáttur verði rannsakaður. Þrjú sjómannafélög eru að berjast fyrir þessum sjálfsagða hlut. Sjómenn, og fjölskyldur þeirra treysta á þennan búnað. Ekki láta þá missa trúna. Vona innilega að þetta verði rannsakað betur núna eftir að Perla sökk.“

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi taka undir orð Vigra um að nauðsynlegt sé að rannsaka öryggisbúnað um borð í skipum. Fullt tilefni er til. Kostnaðurinn við mistök eða galla á öryggisbúnaði getur verið mannslíf. 

Viðburðir