Til hamingju með daginn

Kosningaréttar kvenna minnst
19. júní 2015

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi óska landsmönnum hjartanlega til hamingju með daginn, ekki síst þeim 2600 konum sem starfa í fiskiðnaði og við fiskveiðar á Íslandi.

Í tilefni dagsins var afhjúpuð stytta af Ingibjörg H. Bjarnason, fyrstu konunni sem tók sæti á Alþingi. Styttan af Ingibjörgu er fyrsta mannhæðarháa styttan af konu sem rís í Reykjavík. Var hún afhjúpuð við hátíðlega afhöfn á Austurvelli.

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segir að honum þyki mikill heiður af því að samtökin séu meðal þeirra aðila sem komu að gerð styttunnar. Vel sé við hæfi að verkið sé afhjúpað á 100 ára afmæli kosningarréttarkvenna. 

Styttan af Ingibjörgu er unnin af Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara.

Ingibjörg  H. Bjarnason (1867-1941) sat á Alþingi á árunum 1922 til 1930 fyrir Kvennalistann (eldri), Íhaldsflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn. Ingibjörg starfaði sem kennari og skólastjóri Kvennaskólans í Reykjavík í mörg ár og var fomaður Landspítalasjóðs sem stóð að byggingu Landspítalans. Eftir henni er meða annars haft:

 

„Konur eru þó fullur helmingur allra kjósenda á landinu. Ættu konur að íhuga það vel, að rjettur sá, er íslenskar konur öðluðust árið 1915, er svo mikilsverður, að þær geta, með því að nota hann til fulls, haft úrslitaáhrif á öll þau mál, sem þær láta tíl sín taka“.


Málverk eftir Gunnlaug Blöndal af Ingibjörgu H. Bjarnason. Frekari upplýsingar um Ingibjörgu má meðal annars finna á vef Wikipedia. 

Ingibjörg var af útgerðarfólki komin. Hún var dóttir Hákonar Bjarnasonar og Jóhönnu Kristínar Þorleifsdóttur. Aðeins hún og fjórir bræður hennar komust á legg í tólf barna systkinahópi. Hákon Bjarnason faðir hennar rak verslun og þilskipaútgerð á Bíldudal. Ingibjörg missti föður sinn, þegar hún var aðeins átta ára, þegar vöruskip sem hann kom með frá Kaupmannahöfn, strandaði á Mýrdalssandi í „páskaveðrinu mikla“ 1877. Jóhanna, móðir Ingibjargar, rak útgerðina og verslunina nokkur ár eftir þetta. Sjá nánar á vef Wikipedia. 

Viðburðir