Kjarasamningur undirritaður

Fréttatilkynning Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi
14. nóvember 2016

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Sjómannasamband Íslands hafa undirritað nýjan kjarasamning til næstu tveggja ára. Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur, eitt aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands, tók samningsumboð sambandsins til baka nú undir kvöld og það félag stendur því utan við gerðan kjarasamning. Þá hafa ekki tekist samningar við Sjómannafélag Íslands.

Þrátt fyrir að sjómenn hafi slitið formlegum samningaviðræðum á fimmtudag og verkfall skollið á hið sama kvöld, var ljóst að ekki bar mikið í milli aðila. Óformlegum viðræðum var því fram haldið til að reyna að þoka málum áfram og leysa þá hnúta sem urðu þess valdandi að til verkfalls kom. Sú vinna og góður vilji allra hlutaðeigandi hafa því skilað kjarasamningi sem bæði útgerð og sjómenn geta vel við unað.

Í fyrsta lagi náðu aðilar saman um fiskverðsmál. Þar er um að ræða málefni sem ágreiningur hefur staðið um til margra ára. Sú meginregla hefur verið sett, að í viðskiptum á milli skyldra aðila, þ.e. útgerðar og vinnslu í eigu sömu aðila, skuli fiskverð að jafnaði taka mið af 80% af markaðsverði á fiskmarkaði. Að því er viðskipti með uppsjávarfisk varðar, hefur gagnsæi verið aukið, samskipti útgerða og áhafna vegna fiskverðssamninga verið styrkt og upplýsingagjöf til eftirlitsaðila verið formfest. Í öðru lagi var samið um hækkun kauptryggingar, í þriðja lagi var samið um aukinn orlofsrétt, í fjórða lagi var samþykkt 130% aukning á fjármunum til kaupa á hlífðarfötum og í fimmta lagi var um það samið að fram skyldi fara óháð úttekt á öryggi og hvíldartíma sjómanna. Í sjötta lagi urðu aðilar ásáttir um að svokallað nýsmíðaákvæði yrði tímabundið frá 1. desember 2023.

Það er jákvætt að aðilar hafi borið gæfu til að ná saman um betri kjör sjómanna og SFS bindur vonir við að sjómenn samþykki fyrirliggjandi kjarasamning.

Hluti skipaflotans getur haldið til veiða á næstu dögum, þrátt fyrir að verkfall Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur og Sjómannafélags Íslands standi enn. Viðræðum SFS og síðargreinda félagsins verður fram haldið í fyrramálið og SFS bindur vonir við að samningar takist við það félag.

Viðburðir