Kjarasamningar í sjávarútvegi

Um hvað var samið við sjómenn og hvað ekki
12. nóvember 2016

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og VM – Félag vélstjóra og málmtæknimanna undirrituðu nýjan kjarasamning á fimmtudag. Það er fagnaðarefni. Viðræður stóðu einnig yfir við verkalýðsfélög sjómanna og miðaði þeim vel. Skömmu fyrir boðað verkfall kl. 23 á fimmtudagskvöld ákvað forysta sjómanna hins vegar að slíta viðræðum. Eðli máls samkvæmt er spurt hvers vegna vélstjórar hafið samið en sjómannafélögin kosið að slíta viðræðum um klukkustund áður en verkfall átti að hefjast?

Séu sjómenn ósáttir við kjör sín er það lögbundinn réttur þeirra að leggja niður störf. Vegna þess mikla tjóns sem verkföll geta valdið er hins vegar mikil ábyrgð á herðum samningsaðila að reyna til þrautar að ná samningum. Verkfall á að vera neyðarúrræði. Þrátt fyrir að samningsaðila hafi greint á um einstaka þætti skal staðfest að viðræður gengu lengst af vel, þar sem aðilar sýndu gagnkvæmt tillit og reyndu í góðri trú að forða því að þúsundir manna í sjávarútvegi, hvort heldur á sjó eða landi, legðu niður störf. Því miður tókst ekki að afstýra því.

Um hvað var samið?

Í þeim kjarasamningi sem SFS og VM undirrituðu aðfaranótt föstudags er óumdeilt að aðilar sættust á veigamikla þætti í kröfugerð VM. Sú kröfugerð var að mestu leyti sambærileg kröfugerð sjómannafélaganna.

Í fyrsta lagi náðu aðilar saman um fiskverðsmál; málefni sem ágreiningur hefur staðið um til margra ára. Sú meginregla hefur verið sett að í viðskiptum á milli skyldra aðila, þ.e. útgerðar og vinnslu í eigu sömu aðila, skuli fiskverð að jafnaði taka mið af 80% markaðsverði á fiskmarkaði. Að því er viðskipti með uppsjávarfisk varðar hefur gagnsæi verið aukið, samskipti útgerða og áhafna vegna fiskverðssamninga verið styrkt og upplýsingagjöf til eftirlitsaðila verið formfest.

Með aukinni tæknivæðingu og betri skipum hefur fækkað í áhöfn þeirra. Sjómenn hafa á það bent að fækkun kunni í einhverjum tilvikum að hafa verið of mikil, þannig að öryggi sjómanna sé stefnt í hættu og reglur um hvíldartíma séu ekki virtar. Áhyggjur þessa efnis ber að taka alvarlega, enda eru það sameiginlegir hagsmunir útgerðar og sjómanna að vel og rétt sé búið að öryggi og heilsu sjómanna. Af þessum sökum var í öðru lagi um það samið að hraðað skyldi óháðri úttekt á þessum þáttum.

Í þriðja lagi var samið um hækkun kauptryggingar, í fjórða lagi var samið um aukinn orlofsrétt, í fimmta lagi var samþykkt 56% aukning á fjármunum til kaupa á hlífðarfötum og í sjötta lagi voru greiðslur í endurmenntunarsjóð vélstjóra auknar.

Í sjöunda lagi urðu aðilar ásáttir um að svokallað nýsmíðaákvæði yrði tímabundið frá 1. desember 2023. Mikilvægt er að átta sig á að enda þótt skiptaprósenta geti lækkað tímabundið við kaup á nýju skipi er ekki þar með sagt að laun sjómanna lækki. Þvert á móti hafa þau að jafnaði hækkað. Þetta ákvæði byggist á því að viðkomandi skip sé yfir meðalaflaverðmæti á úthaldsdag í sínum flokki. Þannig eru 25% af tekjulægstu skipunum í viðmiðunarflokki skipsins undanskilin. Af þessum sökum fer fjarri að öll ný skip uppfylli skilyrði ákvæðisins og gróflega má áætla að nýsmíðaákvæðið hafi aðeins tekið til rúmlega 200 stöðugilda á sjó umliðin ár. Því skal til haga haldið að skip sem hafa uppfyllt skilyrði ákvæðisins eru að jafnaði tekjuhæstu skip íslenska fiskiskipaflotans og laun áhafna á þeim því með því besta sem gerist í íslenskum sjávarútvegi. Sem dæmi má nefna að hásetahlutur á uppsjávarskipi sem uppfyllti skilyrði ákvæðisins árið 2015 var tæpar 35 m.kr., eða rúmlega 218 þús.kr. á hvern sjódag. Til viðbótar við laun þessi bætast greiðslur í lífeyrissjóð.

Hér hefur verið tæpt á því helsta sem um var samið og staðreynd málsins er sú að aðilar hafa náð góðri sátt um stærstu kröfur vélstjóra.

Um hvað var ekki samið?

Eins og áður var vikið að tókust ekki samningar á milli SFS og sjómanna. Það er miður. Sú ástæða sem forysta sjómanna hefur gefið fyrir því að slíta viðræðum við SFS varðar mönnunarmál. Telur forystan að með átta manna áhöfn á uppsjávarskipum og 13 manna áhöfn á ísfisktogurum séu brotin lög og reglur um hvíldartíma. Um þetta greinir aðila á, en eins og áður var vikið að höfðu SFS og sjómenn áður sammælst um að láta framkvæma óháða úttekt þessara mála og að vinnu þeirrar úttektar yrði hraðað. Af þessum sökum er erfitt að finna rök þess að láta samningaviðræður steyta á því skeri.

Bæði SFS og sjómenn höfðu lýst því opinberlega umliðna daga að viðræðum miðaði vel áfram. Á síðustu metrunum áður en verkfall skall á mátti raunar ætla að vinna og góður vilji umliðna daga gætu skilað samningi sem vel væri við unað. Þrátt fyrir að verkfall sé nú staðreynd leysa aðilar sig ekki undan þeirri ábyrgð að þeim beri í lengstu lög að forða verulegu tjóni og áframhaldandi verkfalli. Sem fyrr mun SFS ekki liggja á liði sínu í þeirri vegferð. Þegar öllu er á botninn hvolft eru útgerðir og sjómenn samstarfsaðilar með ríka sameiginlega hagsmuni. Því má ekki gleyma. 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. nóvember 2016.

Viðburðir