Jákvæð þróun í mörgum fiskistofnum

9. júní 2016

Hafrannsóknastofnun birti í dag ráðgjöf sína fyrir fiskveiðiárið 2016/17. Markmið stofnunarinnar er að stuðla að sjálfbærum fiskveiðum og góðri umgengi um hafið.

Samkvæmt aflareglu gefur stofnmat þorsks 244 þúsund tonna heildaraflamark fyrir fiskveiðiárið 2016/17, sem er aukning um 5 þúsund tonn eða 2,1 % frá núverandi fiskveiðiári. Þorskstofninn hefur verið á hægri siglingu upp á við frá fiskveiðiárinu 2007/08, en þá var ráðgjöfin 130 þúsund tonn. Hryggningarstofninn er sterkur um þessar mundir og þarf að leita aftur um hálfa öld til að sjá sambærilegan hryggningarstofn. Árgangar 2014 og 2015 mælast sterkir og má því búast við góðri nýliðun árin 2018 og 2019.

Ráðgjöf í ýsu, gulllax, skötusel, löngu, sumargotssíld og fleiri tegundum lækkar. Langa lækkar hlutfallslega mest, um tæplega 42,3% eða 7 þúsund tonn; einnig er töluverður samdráttur  í sumargotssíld, 11,3% eða 8 þúsund tonn.

Ráðgjöf í gullkarfa, djúpkarfa, grálúðu, skarkola og steinbít og fleiri tegundum hækkar.

Í heildina er veiðiálag á flesta stofna hóflegt og jákvæð þróun er í mörgum fiskistofnum. Stofnmat og ráðgjöf vegna mismunandi fiskistofna byggir þó á mismiklum og misgóðum upplýsingum og gögnum og er því bæði mikilvægt og brýnt að efla hafrannsóknir.


Heimild: Hafrannsóknastofnun

Viðburðir