Íslendingar leiðandi í sjálfbærum veiðum

4. febrúar 2015

Íslenskur sjávarútvegur orðinn leiðandi í notkun alþjóðlegu MSC-vottuninni, sem ætlað er að sporna gegn ofveiði fiskistofna. Morgunblaðið fjallaði fyrir skömmu um málið og að breska matvöruverslanakeðjan Sainsbury's hefur ákveðið að eftirleiðis mun þar aðeins verða boðið upp á  þorskrétti sem hafa hlotið MSC-vottun.

Áhugans gætir víðar en nýlega var greint frá áhuga sænskra veitingahúsa á íslenskum MSC-vottuðum gullkarfa. Er Ísland í dag eina landið sem selur gullkarfa með MSC-vottun

En hvað er eiginlega Marine Stewardship Council og hvað felur vottunin í sér?

Gísli Gíslason er svæðisstjóri MSC fyrir Ísland, Færeyjar og Grænland. Hann segir um að ræða samtök sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni en bjóða upp á tvenns konar vottun: fyrir sjálfbærar fiskveiðar og rekjanleika frá bryggju til neytenda. Í samtali við Morgunblaðið sagði hann meðal annars: „Miklar tækniframfarir í fiskveiðum á síðustu öld urðu til þess að æ fleiri fiskstofnar urðu fyrir barðinu á ofveiði. Vendipunktur í þessum efnum var hrun þorskstofnsins við Nýfundnaland á síðustu áratugum aldarinnar. Þorskveiðar á svæðinu voru margfalt umfangsmeiri en þorskveiðar umhverfis Ísland og var hrun stofnsins reiðarslag fyrir atvinnulíf Nýfundnalands og afleiðingarnar einnig alvarlegar fyrir þorskmarkaðinn í heild sinni. Þetta varð til þess að kaupendur og seljendur fóru að hugsa sinn gang og áttuðu sig á að ósjálfbær nýting auðlindarinnar myndi til lengri tíma valda öllum skaða.“

Það voru umhverfissamtökin WWF, World Wide Fund for Nature, sem ásamt matvælarisanum Unilever áttu frumkvæðið að stofnun Marine Stewardship Council. Í dag hefur MSC á að skipa um 130 starfsmönnum sem dreifast á starfsstöðvar vítt og breitt um heiminn, enda ofveiði fiskstofna alþjóðlegt vandamál. „Hugsunin á bak við störf MSC er að nota markaðinn til að keyra áfram gildi sjálfbærrar nýtingar í sjávarútvegi. MSC vekur kaupendur og neytendur til vitundar um mikilvægi sjálfbærra fiskveiða og býr til eftirspurn eftir vottuðum sjávarafurðum. Þetta gefur afurðum úr vottuðum veiðum forskot á markaði og býr um leið til hvata fyrir aðra að verða sér úti um vottun og stunda sjálfbærar veiðar. Á endanum er hugmyndin að allar veiðar í heimshöfunum verði sjálfbærar.“

Á Íslandi hafa samtökin Iceland Sustainable Fisheries verið leiðandi í þessu starfi en þar eiga 38 fyrirtæki aðild, m.a. Icelandic Group, Samherji, HBGrandi og Vignir, og er félagið í dag sameiginlegur vettvangur þeirra íslensku fyrirtækja sem þurfa á MSC-vottun að halda.

Segir Gísli að þess sé gætt í starfi MSC að þar heyrist fjölbreyttar raddir og í stjórn félagsins er fólk með þverfaglegan bakgrunn, s.s. af sviði vísinda, stjórnmála, umhverfismála og að sjálfsögðu fólk úr sjávarútveginum.

Hann segir MSC-merkið vera að festa sig í sessi og seljendur vottaðra sjávarafurða verði þess varir að margir kaupendur hafa markað sér þá stefnu að kaupa einungis fisk sem kemur með vottun um sjálfbærar og ábyrgar veiðar. Vottunin virðist að auki skila sér í betra verði. „Í síðustu ársskýrslu MSC var vitnað í fjórar ritrýndar fræðigreinar sem mældu að MSC-merktur fiskur var að seljast á 10-15% hærra verði út úr búð í Evrópu.“

Að mati Gísla skiptir MSC-vottun eða sambærileg vottun frá öðrum aðilum miklu til að viðhalda samkeppnisforskoti á erlendum mörkuðum. Æ stærri hópur kaupenda og neytenda velur vottaðar sjávarafurðir og þeir sem ryðja brautina geta komið sér betur fyrir en þeir sem reka lestina. „Þar eru horfurnar góðar fyrir íslenskan sjávarútveg en atvinnugreinin hefur á síðustu árum verið mjög opin fyrir MSC-vottun og má segja að Ísland sé orðið leiðandi í hópi fiskveiðiþjóða í þeim fjölda tegunda sem fengið hafa vottunina.“

Mynd: Peter Prokosch


„Miklar tækniframfarir í fiskveiðum á síðustu öld urðu til þess að æ fleiri fiskstofnar urðu fyrir barðinu á ofveiði. Vendipunktur í þessum efnum var hrun þorskstofnsins við Nýfundnaland á síðustu áratugum aldarinnar. Þorskveiðar á svæðinu voru margfalt umfangsmeiri en þorskveiðar umhverfis Ísland og var hrun stofnsins reiðarslag fyrir atvinnulíf Nýfundnalands og afleiðingarnar einnig alvarlegar fyrir þorskmarkaðinn í heild sinni. Þetta varð til þess að kaupendur og seljendur fóru að hugsa sinn gang og áttuðu sig á að ósjálfbær nýting auðlindarinnar myndi til lengri tíma valda öllum skaða.“ Gísli Gíslason, svæðisstjóri MCS. 

Viðburðir