Sameiginleg skilaboð

Helga Thors í viðtali um markaðsmál sjávarútvegsins
28. september 2015

Helga Thors flutti sig úr menningunni yfir í sjávarútveginn fyrir hálfu ári. Sem markaðsstjóri SFS sér hún fyrir sér að atvinnugreinin sjálf hafi í framtíðinni frumkvæði að markaðsaðgerðum

Ímynd íslensks sjávarútvegs og markvissar aðgerðir á erlendum mörkuðum til að kynna gæði og ferskleika eru meðal viðfangsefna Helgu Thors, sem fyrir tæplega hálfu ári var ráðin markaðsstjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Hún segir mikilvægt að talað sé einni röddu í kynningarstarfi við sameiginlega markaðssetningu á íslenskum sjávarafurðum erlendis. Starfið er enn í mótun, en Helga gerir sér vonir um að fyrir áramót verði búið að leggja helstu línur og þá m.a. um fjármögnun. „Við erum með þessu að taka kynningarmálin í auknum mæli í okkar hendur,“ segir Helga. „Í framtíðinni verði það atvinnugreinin sjálf sem hafi frumkvæði að markaðsaðgerðum í greininni og með hvaða skilaboðum það er gert. Með öðrum orðum þá viljum við skapa frekari eftirspurn eftir íslenskum sjávarafurðum með því að koma því á framfæri hve einstök gæðavara íslenskur fiskur er vegna þeirra kunnáttu og þekkingar sem hefur byggst upp hér á landi.“

Hún segir að Íslendingar eigi magnaðan sjávarútveg. Hér hafi fyrirtæki byggt upp stórkostleg og arðbær fyrirtæki og sölustarfið eigi sér fáa ef nokkra líka. „Þannig hefur forsvarsmönnum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja jafnan tekist að fá hærra verð fyrir afurðir sínar þótt við höfum ekki haft sama fjármagn til að vinna á mörkuðum eins og til dæmis Norðmenn og Kanadamenn,“ segir Helga.

Greinin sjálf í mestum tengslum við markaðina

„Þetta hefur íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum meðal annars tekist með því að vinna markvisst að öllum hlekkjum virðiskeðjunnar frá veiðum og í fullunnar pakkningar og út frá forsendum markaðarins hverju sinni. Í ljósi þess hvað íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa gert þetta vel má því með sanni segja að vinnan framundan sé mikil áskorun.

Greiningar hafa þó sýnt að enn frekari tækifæri eru til staðar ef samstaða næst um leiðir til samstarfs. Í það minnsta er mikilvægt að greinin ætli að taka frumkvæði í eigin markaðsmálum og að ákvarðanir þurfi að byggja á þeirri sérþekkingu og reynslu sem þar er til staðar. Það er okkar hlutverk að marka stefnu til framtíðar. Greinin sjálf er í mestum tengslum við markaðina og því er nauðsynlegt að íslenskur sjávarútvegur móti sameiginleg skilaboð og sameiginleg vörumerki.“

 

Neytendur skilji og skynji að  íslenskur fiskur er gæðavara 

Helga segir þó ljóst að augljósar hindranir blasi við. Þó sjávarútvegur sé stór atvinnugrein á Íslandi séu Íslendingar smáir á alþjóðlegum mörkuðum. „Við höfum ekki sama fjármagn og t.d. Norðmenn sem hafa fjárfest verulega í sínu vörumerki á undanförnum árum. Lönd eins og Noregur og Kanada hafa kynnt sinn sjávarútveg á markvissan hátt í meira en 30 ár.

Á Íslandi hafa litlir fjármunir farið í sameiginleg kynningarmál og oft hafa þessi verkefni blandast saman við kynningu á ferðaþjónustu því fiskur hefur oft verið notaður til að kynna Ísland. Þess í stað viljum við nota Ísland til að kynna fisk og gera það á markvissan hátt.“ Helga lítur á verkefnið sem leið til að auka verðmæti sjávarfangs frekar en að auka markaðshlutdeild á tilteknum svæðum, enda sé framboð á fiski takmarkað. „Við viljum fá neytendur til að skilja og skynja að íslenskur fiskur er gæðavara. Uppruninn eigi ekki síst þátt í þeim gæðum og skapi svipuð hughrif meðal neytenda og gerist til dæmis þegar lambakjöt frá Nýja-Sjálandi er nefnt nú eða nautakjöt frá Argentínu. Við tengjum það samstundis við gæði því markaðsstofa í Nýja-Sjálandi hefur unnið markvisst að því í mörgár að kenna neytendum að lambakjöt þaðan sé hágæðavara,“ segir Helga. Þetta sé langtímaverkefni sem muni skila sér hægt en örugglega til baka ef vel tekst til. Hún segir að náið sé unnið með Íslandsstofu að markaðsmálum, sem verði áfram framkvæmdaaðili fyrir marga þætti í þessu verkefni eins og hvað varðar skipulag og þátttöku í sjávarútvegssýningum, móttöku erlendra blaðamanna og fleira sem vel hefur verið gert. Fyrst og fremst snúist hennar hlutverk um að efla kynningarstarfið, móta skilaboðin og stilla saman strengi. Íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi séu mjög ólík og framleiði mjög ólíka vöru, sem fari á ólíka markaði þannig að það sé ákveðin kúnst að skipuleggja heildræn skilaboð sem allir geti verið sáttir við.

 

Tilbúin að keyra af stað

Helga hafði starfað í þrjú ár sem markaðsstjóri Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss þegar hún var ráðin til Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í vor. Hún segir að vissulega séu verkefnin á margan hátt ólík en áskorunin sé bæði stór og áhugaverð. Með Helgu starfa Ingvi Þór Georgsson og Hallveig Ólafsdóttir auk þess sem Karen Kjartansdóttir stýrir samskiptamálum SFS og tengist því verkefninu óbeint. „Þetta teymi er skothelt, við erum tilbúin að keyra af stað í þetta saman“

Greinin birtist fyrst í sérblaðið Morgunblaðsins um sjávarútveg 18.09.2015


Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi Þau koma að markaðs- og kynningarmálum, frá vinstri Karen Kjartansdóttir, Hallveig Ólafsdóttir, Ingvi Þór Georgsson og Helga Thors, markaðsstjóri.

Mynd /Árni Sæberg

Texti / Ágúst Ingi Jónsson

Viðburðir