Hvernig á að byggja upp flutningalandið Ísland?

Ráðstefnan Flutningalandið Ísland í Hörpu 30. september 2015
9. september 2015

Hvernig byggjum við upp samgönguinnviði framtíðar? Hvert verður samspil borga, hafna, flugvalla og atvinnulífs í framtíðinni? Er flutningakerfið tilbúið í útflutningsiðnað framtíðarinnar? Þessum og fleiri spurningum verður leitast við að svara á ráðstefnunni Flutningalandið Ísland sem haldin verður í Hörpu miðvikudaginn 30. september næstkomandi, en skráning er hafin á sjavarklasinn.is. Ráðstefnan er ætluð öllum þeim sem starfa í flutningum og samgöngum og fyrirtækjum sem reiða sig á skilvirka flutninga.

Á ráðstefnunni verða tíu íslenskir fyrirlesarar og þrír erlendir, þ. á m. John D. Kasarda, höfundur bókarinnar Aerotropolis: The Way We'll Live Next sem mun fjalla um hvernig samspil borga, flugvalla og viðskipta verður sífellt meira og mikilvægara og hvað það þýðir fyrir Ísland. Að auki verða erindi sem snerta innviði flutninga, útflutning og alþjóðlegar tengingar Íslands. Fyrirlesarar koma meðal annars frá höfninni í Rotterdam, Eimskipi, Icelandair Cargo, Samherja, Norðursalti, Brim og Íslenska sjávarklasanum en Ólöf Nordal innanríkisráðherra mun opna ráðstefnuna.

Íslenski sjávarklasinn stendur fyrir ráðstefnunni í samstarfi við hóp flutningafyrirtækja sem starfa saman innan klasans, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök atvinnulífsins. Þetta er annað árið í röð sem viðburðurinn er haldinn.

„Þessi hópur fyrirtækja setti saman fyrstu eiginlegu langtímastefnuna um flutninga sem atvinnugrein á árinu 2013 og þessi ráðstefna er mikilvægur liður í að auka umræðu um flutninga og samgöngur. Góðar samgöngur og utanríkisviðskipti hafa alltaf verið forsendur góðra lífskjara hér á landi og það gildir alls ekki síður um ókomna framtíð.“ segir Haukur Már Gestsson hjá Íslenska sjávarklasanum og bendir á að fólk alls staðar að úr atvinnulífinu hafi sótt ráðstefnuna á síðasta ári.

Dagskrá ráðstefnunnar er skipt niður eftir fjórum málefnum. Fyrst verður samspil flutninga og sjávarútvegs í deiglunni þar sem Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, Unnar Jónsson, flutningastjóri Samherja og Bjarki Vigfússon, hagfræðingur Íslenska sjávarklasans benda á áskoranir, tækifæri og áhugaverða framtíðarþróun í flutningum á sjávarafurðum.

Þá taka við þrír erlendir fyrirlesarar. Fyrstur þeirra er John D. Kasarda, höfundur bókarinnar Aerotropolis: The Way We’ll Live Next, ráðgjafi og prófessor við Kenan-Flagler Business School, en hann fjallar um hvernig samspil borga, flugvalla og viðskipta verður sífellt mikilvægara og hvað það þýðir fyrir flutningalandið Ísland. Þá tekur við Patrick Arnold, framkvæmdastjóri flutningafélagsins Soli DG og einn forsvarsmanna fyrirhugaðs sjávarklasa í Portland í Maine fylki í Bandaríkjunum. Hann mun fjalla um tækifærin í bættum tengingum milli Íslands og austurstrandar Bandaríkjanna. Þar á eftir tekur við Sofie Tolk, framkvæmdastjóri matvælaflutninga hjá Rotterdamhöfn sem mun meðal annars fjalla um mikilvægi góðrar skipulagningar og samgöngustefnu til lengri tíma en þekkist hérlendis og reynsluna af því í Hollandi.

Þriðja viðfangsefni ráðstefnunnar snýr að innviðum og uppbyggingu þeirra til framtíðar. Þar mun Gunnar Már Sigurfinnsson forstjóri Icelandair Cargo fjalla um kosti í flugvallarmálum, Gísli Hauksson framkvæmdastjóri Gamma fjalla um einkaframkvæmdir í samgöngum og Sara Pálsdóttir hjá Eimskipi ræða framtíðarsýn í skipaflutningum.

Að lokum verða útflutningur og alþjóðlegar tengingar skoðuð þar sem Haukur Óskarsson, varaformaður stjórnar Nuukhafnar stígur á svið og ræðir tækifæri í bættum flutningum til og frá Grænlandi. Þar á eftir ræðir Garðar Stefánsson, stofnandi Norðursalts reynsluna af því að reka lítið og vaxandi útflutningsfyrirtæki m.t.t. flutninga og Kristján Ólafsson frá KPMG tekur fyrir áskoranir og tækifæri í innviðum og regluverki fyrir smáiðnaði í útflutningi.

Takmarkaður fjöldi miða er í boði og áhugasamir því hvattir til að skrá sig sem fyrst á sjavarklasinn.is.

Frekari upplýsingar veitir Haukur Már hjá Íslenska sjávarklasanum í síma 577 6200.

 

Viðburðir