Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins

Öflugur frumkvöðull sem skapar tækifæri í heimabyggð
1. apríl 2016

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir stýrir fyrirtækinu IceProtein á Sauðárkróki hlaut Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins sem veitt voru á ársráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi árið 2016. IceProtein og Protis settu nýlega á markað nýja vörulínu byggða á áralöngum rannsóknum á heilsubætandi áhrifum fiskpróteina. Þetta þykir Samtökum fyrirtækjum hjá sjávarútvegi afskaplega áhugavert framtak kröftugs frumkvöðuls á sviði rannsókna og þróunar á landsbyggðinni. 

Það voru þau Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem afhentu verðlaunin. Að þessu sinni voru þau forláta ullarteppi frá Vík Prjónsdóttur og hefur skírskotun í íslenska hönnun, landbúnaðar og auðvitað sjávarútveg. 

Um fyrirtækið PROTIS sem framleiðir amínó vörulínuna.

PROTIS er íslenskt líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun, framleiðslu og sölu á lífvirku fiskprótíni úr villtum íslenskum þorski, svokölluðu IceProtein®. Framleiðslan byggir á áralöngum rannsóknum á fiskprótíni sem vísindamenn rannsókna- og þróunarfyrirtækisins Iceproteins hafa stundað í samvinnu við Matís, Háskóla Íslands og fleiri rannsóknastofnanir. Nánar má lesa um fyrirtækið og vörulínuna sem það framlieðir undir heitinu Amínó hér að neðar á síðunni. 

Markmið PROTIS er að hagnýta þá miklu þekkingu og reynslu sem byggst hefur upp í kringum rannsóknir á fiskprótíni og reynslu við veiðar og vinnslu á fiski í þágu bættrar lýðheilsu og betri nýtingar á íslenskum fiskistofnum. Verkefnið er unnið í samstarfi við sjávarútvegsfyrirtækið Fisk Seafood á Sauðárkróki. 

IceProtein tæknin

Fiskprótínið er framleitt samkvæmt IceProtein® tækni sem byggir á vatnsrofstækni þar sem fiskprótínin eru meðhöndluð með vatni og ensímum og í framhaldinu síuð þannig að prótínið samanstendur einungis af smáum lífvirkum peptíðum.

PROTIS notar einungis fyrsta flokks hráefni í vinnsluna á IceProtein® sem meðhöndlað hefur verið með undirkælingu allt frá veiðum að vinnslu. Undanfarin ár hefur IceProtein tekið þátt í alþjóðlegu verkefni sem miðar að þróun kælibúnaðar um borð í ferskfiskskipum til að tryggja undirkælingu hráefnis frá veiðum til vinnslu og er allt hráefni sem notað er í IceProtein® undirkælt. Hráefnið er með rekjanleikavottun sem þýðir að hægt er að rekja hvar og hvenær fiskurinn er veiddur. Hráefnið er einnig með vottun um að veiðarnar séu sjálfbærar.  

Hvað er IceProtein

IceProtein er vatnsrofið fiskprótín sem unnið hefur verið úr hágæða hráefni sem fellur til við flakavinnslu á íslenskum þorski með það að markmiði að hámarka nýtingu á einstakri náttúruauðlind og bæta lýðheilsu. Fiskprótínið er unnið samkvæmt IceProtein® tækni sem byggir á vatnsrofstækni þar sem prótínin eru meðhöndluð með vatni og ensímum og í framhaldinu síuð þannig að prótínið samanstendur einungis af smáum lífvirkum peptíðum.

Amínó-vörulínanan

Amínó vörulínan samanstendur af fæðubótarefnum sem innihalda IceProtein® ásamt öðrum lífvirkum efnum sem styðja við eða auka heilsubætandi virkni þorskpeptíðanna í IceProtein®.

Amínó Liðir inniheldur auk IceProteins® Cucumaria frondosa extrakt sem unnið er úr skráp íslenskra sæbjúgna. Skrápur sæbjúgna samanstendur að mestu leyti úr brjóski og er því ríkur af kollageni og brjósksykrunni chondroitin sulphate[1]. Auk IceProteins® og Cucumaria frondosa extrakts inniheldur Amínó Liðir vítamín D, vítamín C og mangan. Rannsóknir hafa sýnt að fiskpeptíð eins og eru í IceProtein® auka upptöku á kalki úr meltingarvegi og styðja þannig við liðaheilsu. Kollagegn, chondroitin sulphate, vítamín D, vítamín C og mangan eru allt efni sem eru mikilvæg fyrir liðaheilsu.

Amínó Létt inniheldur auk IceProteins® Glucomannan. Glucomannan er náttúrlegar trefjar sem unnar eru úr hnýði rótar konjac plöntunnar. Það hefur verið staðfest í klínískum rannsóknum að glucomannan stuðli að þyngdartapi[2]. Glucomannan er á lista yfir leyfilegar heilsufullyrðingar. Að auki inniheldur Amínó Létt inniheldur auk þessara efna króm-pikkólínat. Rannsóknir á fiskpeptíðum hafa sýnt að þau hafa áhrif á boðefnin CCK og GLP-1 sem eru lykilboðefni fyrir mettun. Margt bendir til að ekki sé nóg af GLP-1 hjá fólki sem þjáist af ofþyngd.

Amínó 100% inniheldur einungis IceProtein®. Amínó 100% er góð leið til að auka úthald og jafna orkustig á milli mála.

Frumkvöðullinn Hólmfríður

Hugmyndasmiðurinn á bakvið AMÍNÓ vörulínuna er Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Iceproteins ehf. og stofnandi og framkvæmdastjóri PROTIS ehf. Dr. Hólmfríður er með meistaragráðu í næringarfræði og doktorsgráður frá matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands.  Hún er með áralanga reynslu í rannsóknum á fiskprótínum og starfaði um árabil sem verkefnastjóri á lífefnasviði Matís við rannsóknir á fiskprótínum. Þorskprótínið (IceProtein®) í AMÍNÓ vörulínunni byggir á langtíma rannsóknum vísindamanna rannsóknafyrirtækisins Iceproteins sem hafa verið unnar í samstarfi við  vísindamenn frá Matís, Háskóla Íslands og samstarfsaðila þeirra hér heima og erlendis. 
Rannsóknirnar hafa verið styrktar af m.a. Tækniþróunarsjóði, AVS og Vaxarsamningi Norðurlands vestra.

[1] Ying et al., 2007. Journal of Agricultural and Food Chemistry, Vol. 55, p. 1188-1192.

[2] Walsh et al., 1984. International Journal of Obesity, Vol 8(4). P. 289-293.  

Viðburðir