Húsfyllir við vígslu Svans

3. nóvember 2015

Fjölmenni fylgdist með því er hin nýja sorpflokkunarstöð HB Granda, Svanur – flokkunarstöð, var opnuð formlega 2. nóvember á athafnasvæði félagsins á Norðurgarði. Með þessari viðbót verður hægt að sameina starfsemi félagsins í Reykjavík á einum stað í eigin aðstöðu í stað þess að vera með leiguhúsnæði og lóð undir skipaverkstæði, varahlutalager og veiðarfæri.

Það var Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda, sem bauð gesti velkomna. Í ræðu sinni fjallaði Vilhjálmur meðal annars um ástæður þess að HB Grandi réðist í byggingu flokkunarstöðvarinnar:

,,Ástæðan fyrir því að félagið réðst í byggingu flokkunarstöðvarinnar er eingöngu sú að við teljum okkur skylt að ganga um umhverfi okkar af eins mikilli ábyrgð og okkur er unnt. Að fenginni reynslu á Vopnafirði var okkur ljóst að við gátum með flokkunarstöð sem þessari komist hjá því að urða tugi tonna af alls kyns endurnýjanlegu efni. Við viljum einfaldlega sýna viljann í verki og því er þessi bygging hér komin. .“

Vilhjálmur sagði stjórnendur HB Granda hafa orðið vara við mikinn áhuga starfsfólks félagsins til sjós og lands á þeim möguleikum sem flokkunarstöðin felur í sér og sá áhugi verði nýttur til að draga eins mikið úr urðun og annarri sóun eins og kostur er. Til að sýna þessu viðfangsefni tilheyrandi virðingu hafi verið ákveðið að efna til samkeppni meðal starfsfólks um nafn á flokkunarstöðina. Þátttaka í samkeppninni hafi verið góð og alls sendu 89 manns inn 404 tillögur. Af mörgum, góðum tillögum þurfti að velja eina og reyndist dómnefnd sammála um að velja nafnið Svanur, flokkunarstöð. Fjórir starfsmenn skiluðu inn tillögu með því nafni og var ákveðið að veita hverjum þeirra 100.000 krónur fyrir vinningstillöguna.Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri HB Granda. 

Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra tók næst til máls og sagði HB Granda til fyrirmyndar þegar kæmi að umhverfismálum og gleðilegt væri að sjá hve fyrirtækið legði mikinn metnað, langt umfram það sem lög og reglugerðir segðu til um, þegar kæmi að málefnum umhverfisins.

Í lok athafnarinnar í flokkunarstöðinni tók Tómas Knútsson, talsmaður Bláa hersins, við sérstakri viðurkenningu HB Granda, fjárstyrk að upphæð 1.000.000 króna sem ætlaður er til að styrkja starf samtakanna við hreinsun strandlengjunnar. Nánar á vefsíðu HB Granda.

Viðburðir