Hnakkaþon - Útflutningskeppni sjávarútvegsins

17. janúar 2015

Keppnin verður haldin í Háskólanum í Reykjavík 23. - 24. janúar og er opin öllum nemendum HR.

Hnakkaþon* er samkeppni fyrir upprennandi sérfræðinga í markaðsmálum, hugbúnaði, tækni og vörustjórnun til að sanna hæfni sína og hæfileika í að þróa og útfæra lausnir fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi. Áskorun Hnakkaþonsins varðar einn af megin atvinnuvegum þjóðarinnar og öll þau umsvif sem þarf til að koma hágæða vöru á alþjóðlega markaði.

Keppnin er samstarfsverkefni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík og er opin öllum nemendum HR.

Vinningsliðið hlýtur ferð til Bandaríkjanna í boði Icelandair Group og sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi.

Fyrir hverja?

Hnakkaþonið er opið öllum nemendum HR sem áhuga hafa á viðskiptum, vörustjórnun, markaðsetningu og öðrum þáttum sjávarútvegs. Þátttaka er endurgjaldslaus og pizzur, gos og kaffi er í boði fyrir þátttakendur á meðan á keppni stendur.

Allt að 5 þátttakendur geta verið saman í liði. Eindregið er hvatt til þess að lið séu mynduð af nemendum frá fleiri en einni deild.

Hvar og hvenær?

Dagana 23. og 24. janúar í Háskólanum í Reykjavík.

Áskorunin í stuttu máli:

Hvernig má koma ferskum íslenskum þorskhnökkum á markað í hágæða matvöruverslunum og veitingastöðum á austurströnd Bandaríkjanna og skapa þar eftirspurn eftir vörunni? Hafa þarf í huga veiðar, flutninga innanlands frá Dalvík og í flugfrakt eða sjóflutningi, flutningaleiðina til Bandaríkjanna og svo dreifingu erlendis alla leið á disk neytenda.

Í verkefninu þarf að leggja áherslu á að hámarka söluverðmæti, lágmarka flutningskostnað og tryggja rétta markaðssetningu ferskra sjávarafurða. Til þess þarf að viðhalda ferskleika alla aðfangakeðjuna, frá veiðum, vinnslu, flutningum, dreifingu og til verslana - þar sem þegar er búið að vinna markaðsstarf með áherslu á uppruna matarins. Markmiðið er að varan sé komin í sölu til neytenda 48 tímum eftir að fiskurinn er unninn en sölutími matvælanna er sjö dagar frá afhendingu.

Til að gefa þátttakendum áþreifanlega innsýn í verkefnið munu talsmenn ólíkra fyrirtækja í virðiskeðjunni hitta nemendur og lýsa áskorunum sem þau fást við:

Samherji
HB Grandi
Icelandair Group
Iceland Seafood International
Matís


Lið og/eða einstaklingar geta skráð sig til leiks til 21. janúar með því að senda póst á skraning@ru.is. Nánari upplýsingar veitir Birna Þórarinsdóttir, verkefnastjóri atvinnulífstengsla, birnath@ru.is og Karen Kjartansdóttir, upplýsingafulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, karen@sfs.is.

Facebook-síða Hnakkaþons 

*já, líklega er best að útskýra heitið í örstuttu máli. Hugmyndin er mótuð út frá skemmtilegum keppnum sem haldnar hafa verið fyrir tölvunarfræðinema víða um heim og nefnast hackathon. Nemendur er þá látnir fást við þrautir sem tengjast tölvunarfræði í nokkurn tíma. Í þessum keppnum fást oft skemmtilegar og frumlegar lausnir auk þess sem fyrirtæki finna oft framtíðar starfsmenn. Út frá þessum hugmyndum var ákveðið að horfa á íslenskan sjávarútveg og leita lausna á því að flytja ferska þorskhnakka á austurströnd Bandaríkjanna. Þegar við fórum svo að leita að hentugu nafni á útflutningskeppnina hentu allir gaman að því að líklega væri hnakkaþon alveg borðleggjandi. Að endingu ákváðum við svo að skella þessum innanhússdjók út í veröldina og úr varð Hnakkaþon - Útflutningskeppni sjávarútvegsins. Á eftirfarandi slóð má lesa nánar um hackathon. http://en.wikipedia.org/wiki/Hackathon

Viðburðir