Heimildarmynd um löndunarstarfið

2. desember 2015

„Að landa úr frystitogara er ekkert grín. Heimildamyndin Keep Frozen er kvikmynd um mannsandann, um það að sigrast á sjálfum sér. Hver einasta löndun krefst gríðarlegarar skipulagningar, vinnu og færni sem erfitt er fyrir utanaðkomandi að ímynda sér. Talsvert hefur verið fjallað um hetjudáðir sjómanna í íslenskri menningu. Nú langar okkur til að varpa ljósi á annan mikilvægan hlekk í verðmætasköpun sjávarútvegar á Íslandi; löndunarstarfið." Þetta segir Helga Rakel Rafnsdóttir kvikmyndaframleiðandi.

Helga segir tökur hafa farið fram í yfir myrkustu vetramánuðina í fyrra en nokkuð vanti um fjá fjármögnun til að hægt sé að ljúka gerð hennar. Hafa því aðstandendur myndarinnar brugðið á það ráð að kynna verkefnið á Karolina Fund fjármögnunarverkefinu í þeirri von að hægt sé að deila henni með almenningi innan tíðar. Hægt er að lesa sér til um verkefnið hér að neðan og styrkja verkefnið HÉR.

Söguþræði myndarinnar er lýst svona og var erfitt er að veða ekki spenntur. „Á kaldri vetrarnóttu siglir drekkhlaðinn frystitogari inn í gömlu höfnina í Reykjavík. Í frystilestinni eru 25.000 fiskikassar, hitastigið er -35 C og hópur manna hefur tvo sólarhringa til að tæma skipið. Á meðan við fylgjumst með þeim framkvæma hið ómögulega heyrum við sögur af karlmennsku og rómantík, gamni og dauðans alvöru.“ 

Löndunarstarfið er áhættusamt og erfitt og hentar ekki hverjum sem er. Mistök í starfi geta verið dýrkeypt og kostað gríðarlega háar fjárhæðir, jafnvel mannslíf. Hver löndun er nánast eins og ritual þar sem að hópur manna yfirstígur gríðarlega erfiða hindrun. Unnið er í akkorði og hver hópur er aðeins jafn sterkur og veikasti hlekkurin, þeir sem ekki ráða við starfið heltast því fljótt úr lestinni. Stór hluti starfsins fer fram með líkamsaflinu einu saman þar sem að lyfta þarf hverjum kassa allt að fimm sinnum í hverri löndun.

Tökur á Keep Frozen fóru fram yfir myrkustu vetrarmánuði ársins 2014. Mikið var lagt í tökurnar og áhersla lögð á að ná öllum mögulegum sjónarhornum á alla verkþætti og persónur myndarinnar. Myndin hefst á pakkfullum togara og endar á því að hann hefur verið tæmdur. Fagurfræðin er mikilvægur hluti myndarinnar og lögðum við okkur fram um að fanga stórbrotið umhverfi togarans og hafnarinnar. Við fylgjumst með löndunarteyminu að störfum og kynnumst sumum þeirra betur en öðrum. Í gegnum persónulegar frásagnir þeirra fáum við innsýn í starfið, goggunarröðina, fórnirnar og verðlaunin, auk þess sem við fáum innsýn í söguna og það hvernig löndunarstarfið er í dag. Sumir verkamannanna lýsa því hvernig þeir urðu að manni þegar þeir hófu störf í löndun. Aðrir lýsa fórnum sem þeir hafa fært vegna vinnunnar, hvernig þeir hafa misst af uppeldi barna sinna og því hvernig vinnutíminn veldur því að þeir eru úr takti við flest annað í samfélaginu. Margir kjósa að vinna einmitt þessa vinnu vegna þess að það veitir þeim ákveðið frelsi, bæði fjárhagslega og félagslega. Keep Frozen er í senn ljóðræn og áferðafögur heimild sem varparljósi á menningar -og sögulegar breytingar.

KeepFrozen hefur þegar verið styrkt af Kvikmyndasjóði og hefur RUV keypt sýningarréttinn. Myndin var valin úr fjölda umsókna í sérstaka kynningu á Nordisk Panorama hátíðinni í Malmö en mjög erfitt er að komast að í þessum flokki þar sem aðeins sex myndir frá öllum Norðurlöndunum voru valdar til þáttöku. Við fórum út í lok september og gekk kynningin vonum framar en myndin fékk mikil og góð viðbrögð frá bæði dreifiaðilum og mikilvægum kvikmyndahátíðum.

En til þess að unnt sé að ljúka við myndina þurfum við á þinni hjálp að halda. Enn á eftir að eftirvinna myndina en í því felst litgreining, hljóðvinnsla og fleira. Einnig kostar það mikla vinnu og peninga að koma myndinni á framfæri, bæði hérlendis og erlendis. Um leið og við þökkum þér fyrir að gefa þér tíma í að kynna þér verkefnið vonum við að þú sjáir þér hag í að styrkja verkefnið og fá í leiðinni umbun fyrir. Við trúum því að Keep Frozen sé mikilvæg mynd á alla kanta og hlökkum til að deila henni með umheiminum!

Aðeins um aðstandendur Keep Frozen:
Teymið að baki Keep Frozen eru þær Helga Rakel Rafnsdóttir framleiðandi og Hulda Rós Guðnadóttir leikstjóri. Saman gerðu þær heimildarmyndina Kjötborg sem vann til fjölda verðlauna og var sýnd á hátíðumvíða um heim auk þess sem hún hefur verið sýnd fimm sinnum á RUV. Kjötborg vann Edduna í flokki heimildarmynda árið 2008, Silfurrefinn á Reykjavík Shorts&Docs, Einarinn á Skjaldborgarhátíðinni og Menningarverðlaun DV í flokki kvikmynda árið 2009. Helga Rakel framleiddi einnig heimildarmyndina Salóme eftir Yrsu Rocu Fannberg sem vann til nokkurra alþjóðlegra verðlauna en hún var til dæmis valin besta heimildarmynd á Norðurlöndum á Nordisk Panorama 2014 auk þess að vinna Menningarverðlaun DV í flokki kvikmynda árið 2015.

Leikstjóri: Hulda Rós Guðnadóttir
Framleiðandi: Helga Rakel Rafnsdóttir
Framleiðslufyrirtæki: Skarkali 
Meðframleiðslufyrirtæki: Kukl 
Handrit: Hulda Rós Guðndadóttir, Helga Rakel Rafnsdóttir, Hinrik Þór Svavarsson
Stjórn kvikmyndatöku: Dennnis Helm
Annar tökumaður: Grímur Jón Sigurðsson
Upptaka hljóðs: Bogi Reynisson
Klipping: Kristján Loðmfjörð
Eftirvinnsla hljóðs: Huldar Freyr Arnarson
Tónlist: Joseph Marzolla og Prins póló

Viðburðir