HB Grandi tekur í notkun eigin flokkunarstöð

Ábyrgð í umhverfismálum
13. september 2015

Flokkun á sorpi í nýrri flokkunarstöð HB Granda er hafin. Starf hennar byggir að miklu leyti á góðri reynslu á starfi fyrirtækisins í umhverfismálum á Vopnafirði. Nafnarnir Gísli Kristjánsson, Gísli Sigmarsson og Sigurður Gunnarsson sem hafa borið hitann og þungann að skipulagningu þessara breytinga. Þeir segja að markmiðið sé einfalt. Stjórn HB Granda hafi haft það að leiðarljósi mörg undanfarin ár að félagið sýni ábyrgð í umhverfismálum um ókomna framtíð. Við því sé brugðist innan fyrirtækisins.

,,Við byrjuðum að flokka allt sorp sem til féll á Vopnafirði fyrir um fjórum árum og reynslan hefur vægast sagt verið góð. Við fengum m.a. viðurkenningu frá Hringrás fyrir að starfrækja fyrirmyndarfyrirtæki í umhverfismálum á Vopnafirði,“ segir Gísli Sigmarsson. Nú er markmiðið að starfsemi félagsins í Reykjavík verði ekki síðri en á Vopnafirði. ,,Það er samt ekki þannig að við séum á byrjunarreit því við höfum fram að þessu flokkað pappír og plast í landvinnslu félagsins. Nú göngum við skrefinu lengra og tökum í notkun 230 fermetra flokkunarstöð með stóru útirými sem einnig er hugsað sem geymsla undir veiðarfæri. Framvegis verður allt sorp, hvort heldur sem það kemur frá landvinnslunni, frystigeymslu, skrifstofum eða skipum hér í Reykjavík, flokkað en Íslenska gámafélagið tekur svo við því sem til fellur,“ segir Gísli Kristjánsson.

Rúmlega 230 tonn af sorpi á ári

Nafnanir segja að vegna starfsemi HB Granda í Reykjavík falli til rúmlega 230 tonn af ýmiss konar úrgangi á hverju ári. Fram að þessu hafa um 80% þess magns farið til urðunar. ,,Fyrsta markmið er að draga úr losun á almennu sorpi um 40% og grófu sorpi um 70% en hvort tveggja er sorp sem fer til urðunar,“ segir Gísli Kristjánsson en hann reiknar ekki með því, frekar en nafni hans, að þessi hagræðing muni skila félaginu tekjum.

,,Vissulega er það rétt að verðmæti eru fólgin í ýmiss konar úrgangi eða sorpi og við munum fá einhverjar tekjur á móti auknum kostnaði en það verða einn til tveir starfsmenn í nýju flokkunarstöðinni. Markmið stöðvarinnar er miklu frekar að sinna samfélagslegri ábyrgð félagsins og fylgja eftir stefnu og metnaði þess í umhverfismálum.“

Í framhaldinu verður ný veiðarfærageymsla flutt í portið við hlið flokkunarstöðvarinnar. Þá er unnið að framkvæmdum við nýtt vélaverkstæði og umbúðageymslu fyrir landvinnsluna og skipaflotann og ætti sú bygging að verða tilbúin í október nk. Að þessum framkvæmdum loknum verður öll starfsemi HB Granda í Reykjavík innan athafnasvæðis félagsins á Norðurgarði.

 Nánar má lesa um málið í Þúfunni, fréttabréfi HB Granda.


Nafnarnir Gísli Kristjánsson, Gísli Sigmarsson og Sigurður Gunnarsson sem hafa borið hitann og þungann að skipulagningu þessara breytinga. Þeir segja að markmiðið sé einfalt. Stjórn HB Granda hafi haft það að leiðarljósi mörg undanfarin ár að félagið sýni ábyrgð í umhverfismálum um ókomna framtíð. Við því sé brugðist innan fyrirtækisins.

Viðburðir