Grænir dagar í Háskóla Íslands helgaðir hafinu

23. mars 2015

Grænir dagar eru röð viðburða innan Háskóla Íslands skipulagðir af GAIA, félagi meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði. Grænir dagar verða haldnir dagana 25. – 27. mars næst komandi og er ætlað að stuðla að vitundarvakningu um ýmis aðkallandi umhverfismál. Þemað í ár er hafið og þær umhverfisógnir sem að því steðja en ábyrgð, skilningur og góð umgengni gagnvart hafinu og lífríki þess er eitthvað sem skiptir okkur á Íslandi miklu máli enda byggjum við afkomu okkar á auðlindinni.

Á dagskránni er til dæmis sýning myndarinnar Mission Blue klukkan 16 miðvikudaginn 25. mars í Norræna húsinu. Í myndinni er sjávarlíffræðingnum Sylviu Earle og samtökum hennar fylgt eftir en þau berjast fyrir bættri umgengni við hafið. Eftir sýningu myndarinnar verður spurt og svarað með aðstandendum samtaka hennar.

Föstudaginn 27. mars klukkan hálf tólf í Stúdentakjallaranum koma svo fulltrúar frá atvinnulífinu, náttúruverndarsamtökum og opinberir starfsmenn saman í pallborði til að ræða um tengsl loftslagsbreytinga og súrnun sjávar. Meðal þeirra sem þar verða til svara eru Kolbeinn Árnason frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Sólveig Rósa Ólafsdóttir frá Hafrannsóknarstofnun, Sesselja Bjarnadóttir frá Umhverfisráðuneytinu og Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands koma saman til að ræða um tengsl loftslagsbreytinga og súrnun sjávar. Umræðum verður stýrt af Guðna Elíssyni, prófessor við Háskóla Íslands. 

Einnig eru á dagskrá fjöldi áhugaverðra fyrirlestra, svo sem með Hrönn Egilsdóttur, doktorsnema í sjávarlíffræði sem nýlega hlaut Hvatningarverðlaun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi fyrir rannsóknir sínar á súrnun sjávar, listasýning frá nemendum Listaháskóla Íslands, hreinsun strandar með Bláa Hernum og bar-svar með sjávarþema.

Allir eru hjartanlega velkomnir sem áhuga hafa á að kynna sér málefni sjávarins. Öll dagskráin fer fram á ensku. Nánari upplýsingar um viðburðina má nálgast á Facebook-síðu Grænna daga, Green Days - Iceland


Viðburðir