Gleðifréttir frá Alþingi

1. júlí 2015

Alþingi samþykkti í dag þingsályktunartillögu um að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að finna leiðir til að draga úr plastpokanotkun hér á landi. Við Íslendingar eigum heilmikið undir jákvæðri ímynd í umhvefismálum og þurfum að sýna að við vinnum að henni meðal annars með þessu máli.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fagna tillögunni en forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja hafa lengi unnið að því að halda auðlindinni eins hreinni og unnt er svo sem með því að safna og endurvinna veiðarfæri, láta hreinsa úrgang úr fjörum og draga úr olíunotkun við veiðar. Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, óskar flutningsmönnum tillögunnar hjartanlega til hamingju. Það sé gleðiefni að unnið sé að því að draga úr plastmengun.

„Þetta er ekki síst mikilvægt fyrir þjóð eins og Íslendinga sem byggir efnahag sinn að mjög miklu leyti á sjálfbærum veiðum og hreinni náttúru. Góð umgengni við náttúruna sem stuðlar að hreinna hafi og minni plastmengun er fagnaðarefni og er jákvætt fyrir vistkerfi hafsins og efnahag landsins sem byggir á góðri umgengni við auðlindina.“

Gleðiefni


Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, óskar flutningsmönnum tillögunnar hjartanlega til hamingju. Það sé gleðiefni að unnið sé að því að draga úr plastmengun.

Í greinargerð tillögunnar segir meðal annars: 

„Það er alkunna að plastpokar og aðrar plastumbúðir utan um matvæli og efnavörur hafa skaðleg áhrif á umhverfið. Plast eykur eftirspurn eftir olíu og það brotnar treglega niður í náttúrunni. . . Léttir plastpokar eru að jafnaði ekki notaðir oftar en einu sinni en geta verið hundruð ára að eyðast í náttúrunni, oft í formi örsmárra plastagna sem geta verið skaðlegar náttúru, til að mynda fyrir lífríki hafsins. Þannig hafa hafstraumar smalað plastögnum úr plastpokum og ýmsu öðru í gríðarstóra fláka í Kyrrahafi, Atlantshafi og Indlandshafi. Plastrusl í hafi getur einnig haft verulegan kostnað í för með sér fyrir útgerðir vegna plasts sem flækist í veiðarfærum, skrúfum o.s.frv. Talið er að árlega endi átta milljarðar plastpoka í ruslinu í Evrópu sem hefur í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir lífríkið. Einfaldar aðgerðir geta haft töluverð áhrif á lífríkið í langan tíma. Hver plastpoki sem fýkur út í veður og vind getur orðið upphafið að langri og afdrifaríkri atburðarás sem ekki hefði farið af stað ef meiri áhersla hefði verið lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir í upphafi. Til að stemma stigu við þessari þróun hafa nokkur ríki í Evrópu gripið til úrræða eins og banns eða skattlagningar á notkun plastpoka til að draga úr magni þeirra í umferð og þar með neikvæðum áhrifum þeirra á umhverfið.“

Það var Margrét Gauja Magnúsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sem flutti málið á síðasta þingi. Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar flutti það svo að þessu sinni ásamt fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar og þingmönnum úr öllum öðrum flokkum.

Tillagan í heild. 

Viðburðir