Frjáls viðskipti eru rétta leiðin

Viðskiptaþvinganir leysa engan ágreining
13. ágúst 2015

„Það eru gríðarlega miklir hagsmunir fyrir íslenskt samfélag fólgnir í viðskiptum við Rússland. Því er eðlilegt að óskað hafi verið eftir umræðu um aðgerðir í utanríkismálum sem kunna að setja í uppnám næststærsta markað íslenskra sjávarafurða,“ segir Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

13% útflutningsverðmæta sjávarafurða

Til að setja málið í samhengi er rétt að hafa eftirfarandi í huga:

  • Ætla má að vinnsla og útflutningur sjávarfangs til Rússlands hafi bein áhrif á mörg hundruð störf í landinu.
  • Viðskipti sjávarútvegsfyrirtækja við Rússland námu um 30 milljörðum króna í fyrra, sé einnig tekið tillit til sjávarafurða sem fóru frá Íslandi í gegnum Holland og Litháen áfram til Rússlands. Til að setja þessa upphæð í samhengi má nefna að rekstur Háskóla Íslands nam í fyrra um 16 milljörðum króna. 
  • Viðskipti við Rússland námu um 13% af öllum útflutningsverðmætum íslensks sjávarútvegs árið 2014.
  • Um 5% af öllum gjaldeyristekjum  íslensku þjóðarinnar vegna vöruútflutnings árið 2014 voru vegna sölu á sjávarafurðum til Rússlands.

 

Langt og farsælt viðskiptasamband

Ísland hefur átt langt, mikilvægt og farsælt viðskiptasamband við Rússland. Sú langa saga stóð órofin þótt kalt stríð geisaði um áratuga skeið og bandarísk herstöð hafi væri staðsett á Miðnesheiði.

Hagsmunir íslensks sjávarútvegs koma ekki einungis sjávarútvegsfyrirtækjum við heldur samfélaginu öllu.

Undanfarna daga hafa þær hugmyndir heyrst að mögulega verði íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum bættur sá skaði sem kann að verða ef rússnesk stjórnvöld banna innflutning á íslenskum sjávarafurðum. Með fullri virðingu fyrir velviljanum sem felst í slíkum hugmyndum þá hlýtur að teljast æskilegra fyrir samfélagið að stjórnvöld skapi sem best umhverfi fyrir íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum til að búa til verðmæti fyrir samfélagið og þurfi ekki að grípa til styrkja og skaðabóta til fyrirtækja.

Óskir Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa snúið að því að stjórnvöld taki tillit til íslenskra viðskiptahagsmuna en fela ekki í sér kröfu um breytingar á utanríkisstefnu Íslands. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að stjórnvöld efni til umræðu um aðgerðir sem snerta jafn mikilvæga hagsmuni þjóðarinnar og íslenskur sjávarútvegur gerir.

 


"Óskir Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hafa snúið að því að stjórnvöld taki tillit til íslenskra viðskiptahagsmuna en fela ekki í sér kröfu um breytingar á utanríkisstefnu Íslands. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að stjórnvöld efni til umræðu um aðgerðir sem snerta jafn mikilvæga hagsmuni þjóðarinnar og íslenskur sjávarútvegur gerir," segir Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. 

 

Án aðkomu íslenskra sjónarmiða

Evrópusambandið hefur hannað viðskiptaþvinganir sínar á grundvelli hagsmuna sinna aðildarríkja án aðkomu íslenskra sjónarmiða. Íslensk stjórnvöld þurfa á hverjum tíma að líta til íslenskra hagsmuna í sínum aðgerðum. Rétt er að minna á að viðskipti íslenskra fyrirtækja við Rússa snúa fyrst og síðast að matvælum til almennings. Ekki er um að ræða vörur sem kunna að nýtast til framleiðslu hergagna eða annars varnings sem getur skaðað fólk.

Fyrirtæki í löndum Evrópusambandsins og Bandaríkjunum stunda viðskipti við fyrirtæki víða um heim, einnig í löndum þar sem gagnrýna má yfirvöld fyrir mannréttindabrot og ýmis konar yfirgang. Ef rétt þykir að stunda ekki viðskipti við fyrirtæki í löndum þar sem stjórnvöld sæta gagnrýni í alþjóðlegum samskiptum þá myndu heimsviðskipti dragast verulega saman og þar með markaðir Íslendinga erlendis. Það er vandséð að viðskiptaþvinganir geti leyst ágreininginn varðandi Úkraínu.

Tækifæri til hagsældar

Í vikunni bárust þær gleðilegu fréttir frá Hafrannsóknarstofnun að aldrei hafi mælst jafn mikið magn af makríl í íslenskri lögsögu og nú í sumar. Mikilvægt er fyrir íslenskt samfélag að tækifærið sé nýtt þjóðinni til hagsældar og verðmæti búin til úr auðlindum sjávar.

Hagsmunir íslensks sjávarútvegs koma ekki einungis sjávarútvegsfyrirtækjum við heldur samfélaginu öllu. Viðskiptasambönd á við þau sem byggst hafa upp við Rússland hafa myndast á mjög löngum tíma. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi styðja áframhaldandi viðskipti við Rússland enda er mikilvægt að rækta gömul vinasambönd þótt vindar blási í heimsmálunum.

Greinin birtist upphaflega í Fiskifréttum 13.8.2015

Viðburðir