Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun: Ástand og aflahorfur

9. júní 2016

Í dag, fimmtudaginn 9. júní, kynnir Hafrannsóknastofnun skýrslu stofnunarinnar um ástand fiskistofna og aflahorfur fiskveiðiárið 2016/2017.
Hafrannsóknastofnun birtir árlega skýrslu um nytjastofna sjávar og aflahorfur næsta árs. Í skýrslunni er að finna hefðbundið yfirlit yfir ástand einstakra nytjastofna, þróun veiða og mat á stofnstærð. Á grundvelli langtímamarkmiða um sjálfbæra nýtingu er lagt til aflamark fyrir á fjórða tug stofna, sem miðast við varúðarsjónarmið og hámarksnýtingu til lengri tíma litið.
Skýrslan í ár er talsvert breytt frá því sem verið hefur undanfarin ár. Í fyrsta lagi er nú kafli um helstu breytingar í vistkerfinu og áhrif athafna mannsins á það en einnig er samantekt um fiskveiðar á Íslandsmiðum. Í öðru lagi hefur formi skýrslunnar og framsetningu ráðgjafar verið breytt verulega.
Hér á eftir er greint frá helstu niðurstöðum fyrir þorsk, ýsu, ufsa, karfa og síld. Varðandi aðra stofna sem fjallað er um í skýrslunni er vísað á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar www.hafro.is þar sem finna má skýrsluna í heild sinni.


Þorskur
Hrygningarstofn þorsks hefur stækkað á undanförnum árum og hefur ekki verið stærri í fjörutíu ár. Veiðihlutfall hefur lækkað og er það lægsta á því tímabili sem gögnin ná yfir. Nýliðun hefur verið fremur stöðug síðan 1998 en mun lægri en hún var árin 1955–1985. Stækkun stofnsins er því fyrst og fremst afleiðing minnkandi sóknar.
Árgangurinn frá 2013 er metinn slakur en árgangar 2014 og 2015 um 200 milljónir þriggja ára nýliða, sem er aðeins yfir langtímameðaltali (175 millj.)
Áætlað er að viðmiðunarstofninn minnki nokkuð árið 2017 þegar slakur árgangur frá 2013 bætist í hann en fari síðan vaxandi á árunum 2018-2019 þegar árgangarnir frá 2014 og 2015 koma inn.
Meðalþyngd eftir aldri í afla hefur aukist undanfarin ár og var árið 2015 nálægt langtímameðaltali (1955–2015). Þyngdir 3–9 ára í stofnmælingum árið 2016, sem eru notaðar til að spá um þyngdir í viðmiðunarstofni árið 2016, eru nokkuð lægri en verið hefur síðustu árin. Vegna þessa er mat á viðmiðunarstofni í ársbyrjun 2016 nú um 9% lægra en fram kom í síðustu skýrslu.
Samkvæmt aflareglu verður aflamark 244 þús. tonn á fiskveiðiárinu 2016/2017 eða 5 þúsund tonnum hærra en aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs.


Ýsa
Hrygningarstofn ýsu hefur minnkað á undanförnum árum en er yfir varúðar- og aðgerðarmörkum aflareglu. Veiðihlutfall árin 2014 og 2015 er metið það lægsta á stofnmatstímabilinu. Árgangar 20082013 eru allir metnir litlir en árgangur 2014 stór og 2015 árgangurinn nálægt meðaltali.
Áætlað er að viðmiðunarstofninn verði í lágmarki 2017 en stækki eftir það þegar árgangur 2014 bætist við hann.
Samkvæmt aflareglu verður aflamark 34,6 þús. tonn á fiskveiðiárinu 2016/2017 sem er 1,8 þús. tonnum lægra en aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs.
Ufsi
Ufsastofninn hefur stækkað undanfarin ár og er hrygningarstofninn nú nálægt meðaltali áranna 1980– 2015. Nýliðun áranna 2009–2015 er frekar jöfn og 20% yfir meðaltali áranna eftir 1980. Veiðihlutfall árið 2015 var undir settu marki. Stofnstærð mun lítið breytast á næstu árum miðað við fyrirliggjandi gögn en stofnmat ufsa er fremur ónákvæmt samanborið við þorsk og ýsu vegna mikils breytileika í vísitölum og vöntun á mælingum á stærð uppvaxandi árganga.
Á síðasta fiskveiðiári náðust úthlutaðar aflaheimildir í ufsa ekki og stefnir í að svo verði einnig á yfirstandandi fiskveiðiári. Breytingar í flotasamsetningu á síðustu árum gætu hafa leitt til þess að ufsi veiðist ekki í sama mæli og áður. Aflahlutdeild línu hefur aukist en hlutdeild tog- og netaveiði minnkað.
Samkvæmt aflareglu verður aflamark 55 þús. tonn á fiskveiðiárinu 2016/2017 sem er það sama og núverandi fiskveiðiárs.


Gullkarfi
Hrygningarstofn gullkarfa hefur vaxið ört síðan 2004 og er vel yfir skilgreindum varúðar- og aðgerðarmörkum. Veiðidánartala hefur verið nálægt settu marki undanfarin fimm ár.
Samkvæmt aflareglu verður aflamark 52,8 þúsund tonn á fiskveiðiárinu 2016/2017 eða 1,8 þús. tonnum hærra en ráðlagt aflamark yfirstandandi fiskveiðiárs.


Síld
Góð nýliðun á árunum 1999–2002 leiddi til þess að hrygningarstofn sumargotssíldar náði hámarki á árunum 2005–2008. Hann minnkaði hins vegar hratt til ársins 2011 vegna affalla af völdum Ichthyophonus sýkingar í stofninum. Áframhaldandi samdráttur í stærð hrygningarstofns er rakinn til minnkandi nýliðunar. Veiðidánartala var lág í byrjun sýkingartímabilsins en hefur aukist og er nú nálægt þeirri sókn sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið. Gera má ráð fyrir að hrygningarstofninn muni ná lágmarki 2017 vegna lítilla árganga frá 2011 og 2012.
Ráðgjöf um aflamark fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 er 63 þús. tonn, eða 8 þús. tonnum lægri en fyrir yfirstandandi fiskveiðiár. Ráðgjöfin miðast við þá sókn er gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið.
Almennt má segja að flestir okkar nytjastofnar séu í ágætu jafnvægi og nýting þeirra hófleg, þannig að breytingar í stofnstærð og ráðgjöf markast af óvissu í vexti og stærð uppvaxandi árganga.
Varðandi aðra stofna sem fjallað er um í skýrslunni er vísað á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar www.hafro.is þar sem finna má skýrsluna í heild sinni.
Hafrannsóknastofnun 9. júní 2016

Viðburðir