Hvatningarverðlaun 2015 - Fjölbreytt atvinnulíf undir merkjum sjávarútvegs

Til hamingju Birna, Þórdís og allir sem stóðu að Heimkomhátíð.
31. maí 2015

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi veittu hvatningarverðlaun sjávarútvegsins í annað sinn á ráðstefnu samtakanna sem haldin var 29. maí síðastliðinn. Karen Kjartansdóttir, kynningarfulltrúi SFS, sagði tilgang verðlaunanna að veita þeim viðurkenningu sem hafa lagt sitt af mörkum til að bæta og efla sjávarútveg með einhverjum hætti. Birna Jónasdóttir rokkstjóri Aldrei fór ég suður og Þórdís Sif Sigurðardóttir tóku á móti húllahring og fengu verðlaunin fyrir að nálgast byggðarumræðu á uppbyggilegan og fræðandi hátt. Verðlaunin eru húllahringur úr vörulínu SIPP OG HOJ sem vann Hönnunarverðlaun Íslands á síðasta ári. SIPP OG HOJ vörurnar eru hannaðar í netagerðinni Egersund á Eskifirði. 

Lesa má um hinar tilnefningarnar hér.

Birna Jónasdóttir, rokkstjóri Aldrei fór ég suður, og Þórdís halda hér á verðlaunagripnum. 

Það var Heimkomuhátíð sem hlaut verðlaunin en viðburðurinn er hluti af glæsilegri dagskrá Aldrei fór ég suður. „Á Heimkomuhátíðinni var tónlistarviðburðurinn notaður til að kynna atvinnutækifæri í heimabyggð. Þetta var mjög gott framtak og sýndi að mörg áhugaverð störf eru í boði hjá spennandi fyrirtækjum sem eru að byggja upp alþjóðlega starfsemi í heimabyggð. Okkur þótti þetta ekki síst skemmtilegt framtak því einhverjar öflugustu og framsæknustu útflutningsgreinar okkar Íslendinga eru einmitt listir, ekki síst tónlist, og sjávarútvegur,“ segir Karen Kjartansdóttir kynningafulltrúi sem afhenti verðlaunin á föstudaginn síðastliðinn. 

Hér að neðan má sjá myndband þegar verðlaunin voru afhent. 

Sjáið þegar Karen Kjartansdóttir kynningarfulltrúi líkir formanni SFS, Jens Garðari Helgasyni við Guðna Ágústsson í fjallkonulíki. Sjón er sögu ríkari.

Viðburðir