Erlent starfsfólk slasast síður

Árangur FISK Seafood í öryggismálum til umræðu á Rás 1
6. janúar 2016
Fiskvinnsla í dag er hátæknivæddur iðnaður með sérþjálfuðu starfsfólki – og um leið alþjóðlegt vinnuumhverfi. Fólk af fjölmörgu þjóðerni vinnur í fiski hér á landi, lærir vinnubrögðin og margir setjast hér að. Á föstudaginn standa Vinnueftirlitið og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fyrir ráðstefnu um öryggismál í fiskvinnslu. Guðrún Sighvatsdóttir, skrifstofustjóri FISK Seafood, sem er með höfuðstöðvar á Sauðárkróki, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 frá árangri fyrirtækisins í öryggismálum. Viðtalið í heild má hlusta á HÉR.
Í viðtalinu ræddi Guðrún við fjölmiðlamanninn Óðinn Jónsson um mikilvægi þess að skrá vel öll atvik og hafa leiðbeiningar myndrænar til að koma til móts við fjölþjóðlegt umhverfi fiskvinnslanna. 
Vinna í fiskvinnslu felur í sér margar hættur af verkfærum og tækjabúnaði. Guðrún Sighvatsdóttir segir að í raun séu allir starfsmenn FISK Seafood öryggisfulltrúar. Farið hafi verið í átak fyrir nokkrum árum sem fækkað hafi mjög alvarlegum slysum. Og þann árangur megi þakka að tekist hafi að virkja alla starfsmenn og auka fræðslu. Slysaskráning sýni að erlendir starfsmenn slasist jafnvel síður en þeir íslensku. Í landvinnslu FISK á Sauðárkróki starfi um 95 manns, fólk af sjö ólíkum þjóðernum, auk Íslendinga. Fæstir séu enskumælandi. Tungumálaerfiðleikar þvælist þó ekki fyrir vegna þess að notaðar séu myndrænar skýringar og merkingar. Það hafi skilað miklum árangri. Auk þess séu erlendir starfsmenn síður kærulausir og fylgja betur settum reglum. Guðrún Sighvatsdóttir segir að vakning sé innan fiskvinnslunnar um að auka öryggi starfsfólksins. Stöðug tækniþróun sé í greininni, afkastamiklar vélar og sumar hættulegar. Miklar og vaxndi kröfur séu gerðar til starfsfólksins. Guðrún segir að vinna við fiskvinnslu sé ekki lengur síðasta val. Störfin krefist menntunar og þjálfunar, t.d. tungumálaþekkingar og tölvulæsis. Og hún nefnir að 19 starfsmenn fyrirtækisins stundi tveggja ára fisktækninám með vinnu, sem boðið er upp á í samvinnu við Fisktækniskólann í Grindavík og Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki. Þetta sé liður í að uppfæra áunna þekkingu og auka þekkingu á starfinu. 
Guðrún er meðal fyrirlesara sem koma fram á sameiginlegri ráðstefnu Vinnueftirlitsins og SFS sem haldin verður á Grand Hótel á föstudag. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna HÉR.


Ráðstefnan er haldin8. janúar  í framhaldi af verkstjórafundi Íslenska sjávarklasans.

Boðið er upp á léttan hádegisverð og er aðgangur er öllum opinn.

Skráning á ráðstefnuna: info@sfs.is merkt Öryggisráðstefna.

 

Viðburðir