Endurbætur í Færeyjum og samanburður við Ísland

Samantekt á niðurstöðum færeysku ríkisstjórnarinnar vegna endurskoðunar á fiskveiðistjórn
3. desember 2016

Sjávarútvegur er ein grundvallarstoð íslensks atvinnulífs. Það er mikilvægt að umræða um breytingar á jafn veigamiklum þætti samfélagsins byggi á bestu fáanlegu upplýsingum. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa að undanförnu kynnt sér þær áskoranir sem Færeyingar standa frammi fyrir í sjávarútvegi. Hafa þau Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur samtakanna, og Steinar Ingi Matthíasson, sérfræðingur SFS í utanríkismálum, kynnt sér þessi mál á umliðnum mánuðum.

Fyrir nokkru kom út skýrsla í Færeyjum, sem unnin var af níu manna nefnd skipaðri af sjávarútvegsráðherra færeysku ríkisstjórnarinnar. Skýrslan ber yfirskriftina „Ein Nýggj og varðandi fiskvinnuskipan fyri Føroyar“. Í henni er vikið að ýmsum þáttum í fiskveiðistjórnunarkerfi Færeyinga og vandamálum sem greinin stendur frammi fyrir, auk þess sem tilraunir Færeyinga með uppboð, á afmörkuðum hluta aflaheimilda í uppsjávartegundum og botnfiski í Barentshafi, eru til umræðu.

SFS hefur útbúið samantekt með helstu niðurstöðum skýrslu færeysku ríkisstjórnarinnar og sett í samhengi við stöðuna á íslandi en flestar af þeim tillögum sem lagðar eru til að verði gerðar í Færeyjum hafa þegar komið til framkvæmdar hér á landi.

„Það er er von okkar að þessar upplýsingar geti nýst þeim sem vilja glöggva sig betur á þeirri vinnu sem á sér stað í Færeyjum og um leið fengið skýrari mynd af íslenskum sjávarútvegi í samanburði. Með skilvirku kerfi og framtakssemi fyrirtækja hefur íslenskur sjávarútvegur skilað árangri sem eftir er tekið á meðal annarra ríkja. Af þeim árangri getum við verið stolt,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS.

Hægt er að lesa skýrsluna með því að smella á myndina hér að neðan. Eðli málsins samkvæmt hafa Íslendingar fylgst með fyrrgreindum tilraunum með uppboð aflaheimilda. Af uppboðum í ár fékk færeyska ríkið því sem samsvarar um 740 milljónir íslenskra króna. Tekjur íslenska ríkisins af veiðigjöldum eru áætlaðar um 8 milljarðar króna árið 2016. Í heildgera ráð fyrirgjaldtaka í færeyskum sjávarútvegi þetta árið verði um 2,7 milljarða íslenskra króna. Færeyskir sjómenn taka þátt í greiðslu þess kostnaðar að hluta.

Í færeysku skýrslunni er til þess mælst að horfið sé frá sóknardagakerfi og þess í stað tekið upp aflamarkskerfi. Horfa Færeyingar þar sérstaklega til reynslu Íslendinga og þeim árangri sem náðst hefur hér á landi með upptöku slíks kerfis. Einnig er vikið að reynslu Íslendinga af takmörkunum á hámarksaflahlutdeild fyrirtækja, en hér á landi miðast hámarkið við 12% af úthlutuðum þorskígildum. Þá er sérstaklega að því vikið hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur náð að auka verðmætasköpun með lóðréttri samþættingu, þar sem keðja veiða, vinnslu, sölu og markaðssetningar er óslitin.

Heiðrún Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóri SFS, veitir frekari upplýsingar í síma 693 3531

Lesa samantekt

Viðburðir