„Sé svo mikil tækifæri í íslenskum sjávarútvegi“

Haftengd nýsköpun í Vestmannaeyjum
27. maí 2016

„Ég sé svo mikil tækifæri í íslenskum sjávarútvegi og framþróun hans. Þetta er það sem við höfum gert hvað best og með frekari nútímavæðingu er hægt að skapa enn meiri verðmæti og fleiri spennandi störf,“ segir Gunnar Heiðar Þorvaldsson, knattspyrnumaður frá Vestmannaeyjum. Gunnar skráði sig nýlega í nýja námslínu sem nefnist „haftengd nýsköpun.“  Námið er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri en kennsla fer fram í Vestmannaeyjum. Áhersla er lögð á sterk tengsl við atvinnulífið og að nemendur vinni að raunhæfum verkefnum í samstarfi við fyrirtæki.

„Mér hefur alltaf þótt meira spennandi að læra með því að fást við hlutina af eigin raun en ekki bara í gegnum bækur,“ segir Gunnar um skipulagið en rétt er að nefna að námið gerir nokkrar kröfur til nemenda. Það er diplómanám (84 ECTS) sem þjálfar nemendur í að nýta þekkingu viðskipta- og sjávarútvegsfræða. Umsækjandi þarf að hafa lokið stúdentsprófi, frumgreinaprófi HR eða samsvarandi prófi.

Gunnar, sem á að baki langan og farsælan feril sem knattspyrnumaður. Hann á að baki 24 leiki og 5 mörk fyrir íslenska A-landsliðið og lék sem atvinnumaður á erlendri grundu í ellefu ár. Gunnar snéri þó aftur á heimaslóðir í fyrra og segist vilja skapa sér tækifæri í Vestmannaeyjum. Námið í muni þó nýtast miklu fleira fólki en bara Eyjamönnum.

Opið er fyrir umsóknir í námið frá 5. febrúar til 5. júní 2016

Námið má kynna sér nánar hér.

 

Viðburðir