Codland hlýtur 75 milljón króna rannsóknarstyrk

13. febrúar 2015

Fullvinnslufyrirtækið Codland í Grindavík hefur hlotið veglegan rannsóknastyrk til að þróa verðmætar vörur úr íslensku fiskroði. Þegar rannsóknum og þróun lýkur er stefnt á að reisa verksmiðju sem vinnur verðmæta vöru úr allt að 3.000 tonnum af roði á ári.

Svavar Hávarðsson, blaðamaður Fréttablaðsins, fjallar ítarlega um málið í Fréttablaðinu 2. febrúar. Þar segir meðal annars að rannsóknarverkefnið, sem er til þriggja ára, muni leiða saman nokkur af helstu líftæknifyrirtækjum og stofnunum á Norðurlöndunum og hefur það að markmiði að þróa ný ensím sem ætluð verða sérstaklega til að vinna kollagen peptíð úr kaldsjávarfiski. Styrkféð, sem veitt er af Nordic Innovation, nefndar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, er 75 milljónir króna.

Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Codland, segir rannsóknastyrkinn mikla lyftistöng fyrir það rannsókna- og þróunarstarf sem unnið er hjá Codland. Undanfarin misseri hefur Codland unnið að tilraunaframleiðslu kollagens úr þorskroði í samstarfi við gelatínframleiðendur á Spáni, en kollagen er lífvirkt efni sem sífellt verður vinsælla í heilsu- og snyrtivörugeiranum. Vinnslan margfaldar jafnframt virði fiskroðsins sem hráefnis, og ekki fjarri lagi að með því að selja kollagen í smáum neysluskömmtum til neytenda sé virðisaukinn fimmtugfaldur. Í verksmiðju Codland, sem stefnt er á að reisa, er talið raunhæft að unnið verði úr tvö til þrjú þúsund tonnum af fiskroði á ári. Talið er raunhæft að fyrirtæki sem vinna afurðir úr fiskroði muni skapa 100 til 200 manns atvinnu hér á landi innan fárra ára.

Erla Ósk segir rannsóknastyrkinn mikla lyftistöng fyrir það rannsókna- og þróunarstarf sem unnið er hjá Codland. Ekki síst sé mikilvægt að styrkurinn tengir fyrirtækið við rannsóknaraðila sem útvíkki tækifæri fyrirtækisins til framtíðar. Um samvinnu við Matís, Barentzyme í Noregi, DTU-Biosustain og Háskólann í Árósum í Danmörku er að ræða. Fjárfestingin við að setja verksmiðjuna á fót, samkvæmt forsendum dagsins í dag, er metin í kringum 500 milljónir króna fyrir utan húsnæði. „Við erum þegar að framleiða kollagen á Spáni sem er hluti þeirrar vinnu að undirbúa verksmiðjuna hérna heima. Þessar rannsóknir munu, vonandi, skila fleiri afurðum og gera framleiðsluna fjölbreyttari,“ segir Erla Ósk.

Einnig má lesa um verkefnið á heimasíðu fyrirtækisins codland.is 


  • Kollagen er lífvirkt efni sem sífellt verður vinsælla í heilsu- og snyrtivörugeiranum.

  • Framleiðsla á kollageni gefur fjölbreytt tækifæri, enda er um öflugasta byggingarprótein líkamans að ræða. Vinnslan margfaldar jafnframt virði fiskroðsins sem hráefnis, og ekki fjarri lagi að með því að selja kollagen í smáum neysluskömmtum til neytenda sé virðisaukinn fimmtugfaldur.

  • Með kollagenframleiðslu innanlands skapast fjölmörg tækifæri til frekari atvinnuþróunar sem byggir á efninu.

  • Í verksmiðju Codland, sem stefnt er á að reisa, er talið raunhæft að unnið verði úr tvö til þrjú þúsund tonnum af fiskroði á ári. Fyrstu hugmyndir eru að verksmiðjan rísi á Reykjanesi og nýti orku frá Reykjanesvirkjun. Eins að innan fárra ára sé ekki ólíklegt að fyrirtæki sem vinna afurðir úr fiskroði skapi 100 til 200 manns atvinnu.

  • Með verksmiðjunni er hringnum lokað hvað varðar vinnslu aukaafurða úr íslensku sjávarfangi, en fiskroð eru að stórum hluta flutt út frosin.

Viðburðir