Bein útsending frá ársráðstefnu SFS

1. apríl 2016

Við bjóðum fólk hjartanlega velkomið á ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi árið 2016. Yfirskriftin er ekki af hógværari gerðinni „Stærstu vaxtatækifæri íslensks atvinnulífs“.

Við sem í greininni störfum stöndum hins vegar á því fastar en fótunum að í greininni felist einmitt þessi tækifæri. Sjávarútvegurinn er íslensku efnahagslífi gríðarlega mikilvægur bæði í hinum þrengri skilningi sem okkur er svo tamt að skoða hann, en enn frekar þegar við horfum á hann í réttu ljós og skoðum allar þær greinar sem þrífast í kringum hann hvort heldur er í formi þjónustu, þróunar og rannsókna eða iðnaðar.

Þessi tækifæri sem við erum að vísa til finnast víða og verða til vegna þess að grunn stoðin, nýting hinna lifandi auðlinda hafsins er ábyrg og hagkvæm og sá kraftur og hagnaður sem þar myndast er nýttur áfram til þróunar og verðmætasköpunar og svo koll af kolli.

Það er undir okkur komið sem þjóð að skapa það umhverfi um þessa atvinnugrein sem og aðrar að þær fái þrifist sem best og þar með að þær skili okkur sem mestum verðmætum. Ábyrgð okkar sem í greininni starfa er svo sú að nýta þetta umhverfi þannig að samfélagið allt fái notið.

Í dag förum við yfir sjávarútveginn á jákvæðu nótunum og virðum fyrir okkur þau tækifæri sem þar er að finna, heyrum af því sem þegar hefur verið gert og lærum vonandi eitthvað nýtt.

Viðburðir