Ástand uppsjávarfiskistofna í Norðaustur-Atlantshafi og tillögur um heildarafla

Fréttatilkynning frá Hafrannsóknastofnun:
30. september 2015

Ástand uppsjávarfiskistofna í Norðaustur-Atlantshafi og tillögur um heildarafla norskíslenskrar
síldar, kolmunna og makríls.

Nýlokið er fundi ráðgjafarnefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) þar sem fjallað var um ráðgjöf um aflamark þriggja uppsjávarfiskistofna í Norðaustur-Atlantshafi sem Íslendingar stunda umtalsverðar veiðar á, þ.e. norsk-íslensk vorgotssíld, kolmunni og makríll. Þar sem veiðar úr þessum stofnum eru fjölþjóðlegar hefur Hafrannsóknastofnun komið að mati á stærð og veiðiþoli þeirra með virkri þátttöku í sýnatökum úr afla og leiðöngrum og með starfi í vinnunefndum og í ráðgjafarnefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Norsk-íslensk vorgotssíld

Árgangarnir frá 1998, 1999 og 2002-2004 voru allir stórir, sem leiddi til þess að hrygningarstofninn fór vaxandi frá árinu 2003 og náði hámarki árið 2009. Hrygningarstofninn hefur farið minnkandi síðan vegna lélegrar nýliðunar og hefur verið metinn undir varúðarmörkum (Bpa=5 milljón tonn) síðan 2014. Samkvæmt nýjasta mati er hrygningarstofninn árið 2015 rétt tæpar 4 milljónir tonna. Þetta mat er 13% hærra en úttekt síðasta árs gerði ráð fyrir. Þessi munur stafar aðallega af því að í ár var við samstillingu stofnmats tekið tillit til leiðangurs á hrygningarslóð 2015, en sá leiðangur hafði legið niðri frá því 2009. Árgangar 2005-2012 eru allir metnir litlir og því fyrirséð að afli og hrygningarstofn munu minnka á næsta ári, en ná svo jafnvægi ef veitt verður áfram með sama lága veiðihlutfallinu. Árgangur 2013 er metinn nálægt langtímameðaltali (1988-2012), en mat hans er enn háð óvissu. Talið er að hrygningarstofninn árin 2016 og 2017 verði um 3,6 milljónir tonna ef afli árið 2016 verður samkvæmt aflareglu.
Aflamark árið 2015 var 283 þúsund tonn samkvæmt ráðgjöf ICES, en ekki náðist samstaða strandríkja um skiptingu aflaheimilda árið 2015 og er gert ráð fyrir að aflinn verði 328 þúsund tonn, en þar af var 41 þúsund tonnum úthlutað til íslenskra skipa. Samkvæmt aflareglu, verður
aflamark árið 2016 tæp 317 þúsund tonn. Ekki hefur enn náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr stofninum um
skiptingu aflamarks.

Kolmunni
Á árunum 1996-2004 var mjög góð nýliðun í kolmunnastofninn, sem stækkaði verulega í kjölfarið. Hrygningarstofninn var um 7 milljónir tonna á árunum 2003 og 2004, en fór síðan minnkandi til ársins 2010 vegna lélegrar nýliðunar og mikils veiðiálags. Árgangar 2005 til 2008 eru allir metnir nálægt sögulegu lágmarki, en árgangar 2009 til 2014 eru metnir vera um og yfir langtíma meðaltali. Matið á yngstu árgöngunum er þó enn háð óvissu. Mjög lítill afli árið 2011 og góð nýliðun undanfarin ár hefur orðið til þess að stofn og afli hafa farið vaxandi. Samkvæmt nýjasta stofnmati er hrygningarstofninn metinn mun lægri en hann var metinn fyrir ári síðan og allt aftur til ársins 2004. Mest er lækkunin á allra síðustu árum. Þessi lækkun stafar af því að mun minna mældist af eldri árgöngum í bergmálsleiðangri á hrygningarslóð vestan Bretlandseyja vorið 2015 en í samsvarandi leiðöngrum frá 2013 og 2014. Samkvæmt nýjasta stofnmati er hrygningarstofninn árið 2015 metinn 3,3 milljónir tonna. Þetta mat er 42% lægra en úttekt síðasta árs gerði ráð fyrir. Ráðgjöf ICES fyrir árið 2015 var 840 þúsund tonn, en hins vegar er gert ráð fyrir að aflinn verði um 1,3 milljónir tonna. Miðað við þær forsendur þá mun hrygningarstofninn árið 2016 verða um 3,6 milljónir tonna.

Ekki hefur enn náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr stofninum um skiptingu aflamarks, en 203 þúsund tonnum var úthlutað til íslenskra skipa fyrir árið 2015. Aflareglan, sem var samþykkt árið 2008, er fallin úr gildi. Því veitir ICES ráðgjöf miðað við
þá veiðidánartölu sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið (MSY). Aflamark árið 2016
er samkvæmt því 776 þúsund tonn. 

Makríll
Samkvæmt nýjasta stofnmati þá er hrygningarstofninn metinn lægri heldur en að hann var metinn fyrir ári síðan. Lækkun á metinni stofnstærð nær allt aftur til ársins 2005 og er mestur munur á árunum 2009-2013. Þessi lækkun skýrist aðallega af niðurstöðum leiðangursins í júlí 2015 í Norðurhöfum, sem gaf lægri vísitölu nú en árin 2013 og 2014. Hrygningarstofninn árið 2015 er metinn hafa verið 3,6 milljón tonna, sem er 18% lægra mat en fyrir ári síðan. Ráðgjöf ICES fyrir árið 2015 var á bilinu 831 til 906 þúsund tonn, en hins vegar er gert ráð fyrir að
aflinn verði um 1,2 milljónir tonna,. Miðað við þær forsendur þá mun hrygningarstofninn árið 2016 vera um 3,1 milljónir tonna.
Ekki hefur enn náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr stofninum um skiptingu aflamarks en 173 þúsund tonnum var úthlutað til íslenskra skipa fyrir árið 2015. Aflaregla er ekki í gildi fyrir makrílstofninn og því veitir ICES ráð í miðað við þá veiðidánartölu sem gefur hámarksafrakstur til lengri tíma litið (MSY). Aflamark árið 2016 er samkvæmt því 667 þúsund tonn.


Sjá nánar á síðu ICES:

Hafrannsóknastofnun 30. september 2015

Viðburðir