Árið 2015 - Litið um öxl eða horft inn í framtíðina

6. janúar 2015

Í blaðinu Áramót, sem Viðskiptablaðið gefur út um hver áramót, birtist skemmtilegur pistill Eggerts Benedikts Guðmundssonar, forstjóra N1. Í stað þess að fara yfir atburði ársins 2014 bregður Eggert fyrir sig spádómsgáfu og segir frá nokkrum gleðilegum tíðindum ársins 2015. Meðal annars sér hann eftirfarandi atburði fyrir: 

„Árið 2015 var happadrjúgt ár fyrir margra hluta sakir. Nýtt upphaf varð í umræðunni um sjávarútveg á Íslandi. Ný Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, náðu fótfestu, Konur í sjávarútvegi, KIS, tóku vaxandi forystu í atvinnugreininni og Sjávarklasinn hélt áfram sinni öflugu siglingu. Rekstur sjávarútvegsfélaga blómstraði sem fífill í túni og betur rættist úr loðnuvertíð en útlit var fyrir í byrjun árs. Afurðaverð á erlendum mörkuðum var hagstætt og greinin var í stakk búin til að greiða sanngjarnan skerf af afkomu sinni til sameiginlegra sjóða, í samræmi við ný lög um stjórn fiskveiða, sem samþykkt voru samhljóða á vorþingi. Nokkur útgerðarfélög voru skráð á hlutabréfamarkað eða hafa undirbúið slíka skráningu, auk þess sem samruni fjögurra lykilútgerða í tvær hefur eflt báðar heimabyggðir félaganna og styrkt þau í sessi sem framtíðar sjávarpláss.

Með öllu þessu kvað við nýjan tón í umræðunni um sjávarútveg á Íslandi. Sjálfbær þróun greinarinnar í sátt við efnahagslegar, umhverfislegar og félagslegar kröfur virðist loksins í höfn og framtíðin því björt. Afar mikilvægt er að viðhalda þessari sátt og falla ekki í þá freistni að sundra henni, þótt slíkt væri létt verk og löðurmannlegt. Verulegur árangur náðist í sameiginlegri markaðssetningu sjávarútvegs, ferðaþjónustu, orkusölu og hinna skapandi greina á erlendri grundu. Snilldarleg lausn til fjármögnunar á uppbyggingu og rekstri viðkvæmra ferðamannastaða, sem fram kom á vormánuðum, leysti marga erfiða hnúta. Sérstaka athygli vakti tenging þeirrar lausnar við gjaldtöku á aðrar greinar, s.s. sjávarútveg og orkuframleiðslu. Til kvaddir erlendir sérfræðingar dáðust að þeirri heildarímynd, sem Ísland hefur öðlast alþjóðlega, og byggist á ábyrgri umgengni um takmarkaðar auðlindir til lands og sjávar."

Þeir sem vilja skyggnast frekar inn í framtíðarsýnir Eggerts geta lesið hann í heild á vef Viðskiptablaðsins. 

Viðburðir