Ánægjulegar fréttir af sjó og landi

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS skrifar:
14. september 2015

Sjómennska er krefjandi og erfitt starf sem útheimtir fleiri fórnir af fólki en flest önnur störf gera. Þannig metur Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) sjómennsku hættulegasta starf í heimi. Í skýrslu stofnunarinnar frá árinu 2009 sagði meðal annars að af þeim 15 milljónum sem stundi sjómennsku í heiminum láti um 24 þúsund manns lífið árlega í vinnuslysum. Þetta þýðir að dánartíðni sjómanna er hærri en meðal námaverkamanna og skógarhöggsmanna.

Í ljósi þessara skelfilegu staðreynda fyllist maður enn frekari ánægju við að sjá niðurstöður á borð við þær sem birtust í könnun sem Gallup gerði fyrir Samgöngustofu. Niðurstöðurnar sýndu meðal annars að 90 prósent sjómanna eru ánægðir í starfi. Í frétt frá Samgöngustofu sagði einnig að niðurstöðurnar sýndu að miklar framfarir hafa orðið frá fyrri könnunum í öryggismálum sjómanna og hefur slysum og óhöppum fækkað jafnt og þétt. Því megi þakka bættum skipakosti, aukinni menntun sjómanna og viðhorfsbreytingu til öryggismála um borð í skipunum. Einnig hefur aðbúnaður um borð sífellt orðið betri.

Tölfræði um slys við sjómennsku sem og niðurstöður könnunar Samgöngustofnu sýna að hugarfarsbreyting þegar kemur að forvörnum og vinnuvernd getur lyft grettistaki. Vinnuvernd og öryggismál eru verkefni sem sífellt þarf að huga að, þetta er verkefni sem aldrei tekur enda, það tekur sífellt á en ef að vel er að því staðið getur árangurinn orðið stórkostlegur.

Þá miklu reynslu, þekkingu og árangur sem stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja og stofnanna sem þeim tengjast þarf nú að nýta til að draga úr slysum í fiskvinnslum. Það eru alvarleg tíðindi fleiri slys séu skráð þar en áður var. Um leið eru þetta samt viss gleðitíðindi því þetta sýnir eflaust líka að skráningar hafa batnað og menn taka því ekki sem gefnum hlut að slys verði þótt aðstæður séu varasamar. Við þurfum að taka þessum upplýsingum alvarlega og vinna af festu að því að bæta aðstæður og öryggi landverkafólks.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi vinna nú að því að setja saman ráðstefnu ásamt fulltrúum Vinnueftirlitsins og fleirum sem haldin yrði snemma á næsta ári. Við vonumst til þess að þetta verði til enn frekari vakningar um mikilvægi forvarna og hvetjum félagsmenn okkar til að gefa þessum málum enn frekari gaum. 

 

Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS

Viðburðir