„Almennt bjart framundan“

22. apríl 2016

Niðurstöður úr nýrri stofnmælingu botnfiska Hafró gefa tilefni til bjartsýni. Vísbendingar eru að framhald sé á hægfara en stöðugri stækkun þorskstofnsins. Árgangur 2014 mælist nú stór annað árið í röð og 2015 árgangurinn virðist einnig vera stór. Þessir árgangar koma inní veiðina 2018 og 2019. Hvað ýsuna varðar eru góðu fréttirnar þær að árgangur 2014 mælist aftur sterkur en sá árgangur kemur í kjölfar sex slakra árganga. Ýsuveiði fór hratt minnkandi fyrir nokkrum árum en nú er þeirri minnkun vonandi lokið og vonandi hægt að sjá auknar veiðiheimildir eftir eitt til tvö ár.

Jens Garðar Helgason, formaður og starfandi framkvæmdastjóri SFS, segir að vitanlega hefði hann viljað sjá frekari styrkingu í sumum tegundum og hvetur til frekari rannsókna.

„Þannig höfum við lengi bent á nauðsyn þess að efla rannsóknir og mælingar á ýmsum smærri fiskistofnum hér við land eins og t.d ýmsum stofnum flatfiska, löngu, keilu og fleiri tegundum,“ segir Jens Garðar. 

Viðburðir