Hafró í hálfa öld

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS
20. nóvember 2015

Hafrannsóknastofnun fagnar 50 ára afmæli um þessar mundir. Hlutverk stofnunarinnar er þríþætt, að stunda rannsóknir á hafinu og lífríki þess, að veita ráðgjöf til stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu á auðlindum hafsins og að miðla upplýsingum til stjórnvalda, hagsmunaaðila í sjávarútvegi og almennings.

Í ávarpi sem Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, flutti í hátíðardagskrá í Hörpu í tilefni tímamótanna sagði hann meðal annars: „Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu á sjávarútvegi, hafa verið brautryðjendur í fiskveiðistjórnun og eiga áfram að vinna að því að vera leiðandi á þessu sviði í heiminum.

Til þess þurfum við að gefa í og taka hlutverk okkar alvarlega, sérstaklega þegar kemur að hafrannsóknum.“ Fór Kolbeinn því næst yfir þá þætti sem hann taldi mikilvægt að tekið yrði á í starfi Hafró.“ Ekki mætti sofna á verðinum þótt margt hefði tekist vel. Ræðu hans í heild má lesa hér að neðan.

Árangur af starfi Hafrannsóknarstofnunnar

„Velferð íslendinga byggist að stórum hluta á skynsamlegri nýtingu auðlinda, hvort heldur er fiskistofna, orku eða náttúru landsins.

Íslendingar hafa þegar náð miklum árangri við að stýra sókn í nytjastofna sjávar og draga úr umhverfisáhrifum sjávarútvegs. Árangurinn lýtur ekki eingöngu að því að nytjastofnar séu hér nýttir á sjálfbæran hátt heldur er hér rekinn arðbær, framsækinn og tæknivæddur sjávarútvegur sem er í stöðugri framþróun. Árangurinn er reyndar svo mikill að litið er til greinarinnar sem fyrirmyndar víða um heim og í öðrum atvinnuvegum hér á landi.

Þessi árangur hefur ekki orðið til af sjálfum sér og hefur ekki náðst átakalaust – svo vægt sé til orða tekið. Þrátt fyrir þessi átök hefur verið um það breið samstaða að fiskistofnar skuli nýttir á sjálfbæran hátt. Hér á landi er staðan einfaldlega sú að við getum ekki leyft okkur að ganga á þennan höfuðstól. Þetta er okkar stærsta eign, sú sem við ætlum að byggja á og lifa af til allrar framtíðar. 

Að mörgu er að hyggja þegar tekist er á við þetta stóra verkefni. Undirstaða alls og forsenda þess að hægt sé að takast á við verkefnið er óumdeilanlega þekking og rannsóknir á þeim fiskistofnum sem við nýtum og vistkerfi hafsins í kringum landið.

Þetta verkefni hefur Hafrannsóknarstofnun verið falið og nú fögnum við því að stofnunin hefur staðið vaktina í 50 ár.

Rétt er þó að minnast þeirra frumkvöðla sem fyrstir fóru að stunda hafrannsóknir við Ísland fyrir tíð hafrannsóknarstofnunar því þótt stofnunin hafi tekið til starfa árið 1965 vitum við að saga hennar nær í raun lengra.

Það er líka rétt að hafa í huga að það að koma stofnun á laggirnar með lögum dugar skammt ef ekki nýtur krafta fólks sem brennur af áhuga á viðfangsefninu og löngun til að gera betur, afla meiri þekkingar og bæta samfélag sitt og umhverfi .

Eflaust hljóma ég nú svolítið hátíðlega  en mér finnst við Íslendingar einfaldlega geta verið stolt af árangri Hafrannsóknarstofnunar og fiskveiðistjórnunar við Ísland. Við eigum að halda þessum árangri á lofti en um leið eigum við að leitast við að gera betur.

Langtímasjónarmið eiga að ráða en ekki tækifærismennska

Nú eru um fjörtíu ár frá útkomu „Svörtu skýrslunnar“ svokölluðu. Skýrslan var raunar svar Hafrannsóknarstofnunnar við bréfi sjávarútvegsráðuneytisins, þar sem ráðuneytið bað um að stofnunin gerði tillögur um hámarksafla fyrir árið 1976. Eins og viðurnefnið ber með sér gaf skýrslan ekki tilefni til bjartsýni.

Reyndar hentaði þessi skýrsla Íslendingum að mörgu leyti vel. Um þessar mundir var verið að vinna að því að færa fiskveiðilögsögu landsins í 200 sjómílur. Íslendingar stóðu því í sínu síðasta þorskastríði og hentuðu fiskverndarsjónarmið ráðamönnum vel í þeirri baráttu við að koma útlenskum fiskiskipum af miðunum.

En þegar það hafði tekist vöknuðu efasemdir í íslensku samfélagi um að fiskifræðingingar hefðu haft rétt fyrir sér í skýrslunni.

Það leið þó ekki á löngu áður en veiðar á Íslandsmiðum höfðu sótt í sama farið og ofveiði íslenskra skipa var orðin slík að ekki mátti lengur við það búa. Flestum varð ljóst að taka þurfti ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar alvarlega óháð því hver stundaði veiðarnar.

Það sem hér tókst við þær aðstæður sem skapast höfðu árið 1984 var að ná samstöðu stjórnvalda og atvinnugreinarinnar um að koma á fót stjórnkerfi fiskveiða sem grundvallaðist á fiskveiðiráðgjöf Hafrannsóknarstofunarinnar sem tæki mið af bestu fáanlegu vísindum og rannsóknum.

Meinvarp í efnahagslífi eða grundvöllur hagsældar?

Þó að grundvöllurinn hafi verið lagður fyrir rúmum þremur áratugum hefur vegferðin ekki alltaf verið auðveld. Pólitískar deilur um fiskveiðistjórnunarkerfið hafa einkennt þetta tímabil og ekki verður hjá því vikist að horfast í augu við það að á ákveðnum tímum féllu stjórnmála menn í þá freistni að fara verulega fram úr ráðgjöf Hafró vegna skammtímasjónarmiða.

Þá er það staðreynd að á tíðum hafa verið átök um hvort yfir höfuð eigi að leggja ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar til grundvallar við stjórn fiskveiða við landið. Jafnvel var svo langt gengið í ákveðnum hópum að kalla Hafrannsóknastofnun meinvarp í íslensku efnahagslífi.

Þá verðum við líka að horfast í augu við það að fiskifræðin er ekki alltaf auðvelt fag. Það umhverfi sem er viðfangsefni þeirra fræða er flókið og ekki alltaf fyrirsjáanlegt og slíkt leiðir á stundum til þess að skekkjur eru í stofnmati, ráðgjöf og ályktunum sem kallar á að kúrsinn sé réttur.

Þrátt fyrir þessa á stundum erfiðu vegferð leyfi ég mér að segja að samstaðan um þann grundvöll sem rannsóknir Hafrannsóknarstofnunar og hennar ráðgjöf við stjórn fiskveiða skapa hafi aldrei rofnað. Þvert á móti hefur grundvöllurinn styrkst bæði í orði og á borði. Í dag er þeir aðilar sem ekki vilja byggja nýtingu auðlinda á bestu fáanlegu vísindagögnum ekki teknir alvarlega í umræðunni og ráðamenn hafa undanfarið staðið fastar í lappirnar við að fylgja þeirri ráðgjöf sem þannig er sett fram.

Hver er árangurinn?

Árangurinn er sá að hér er rekinn sjálfbær og arðbær sjávarútvegur, sjávarútvegur sem stendur að stórum hluta undir velferð landsmanna.

Árangurinn er sá að fyrirtæki í sjávarútvegi horfa til framtíðar í rekstri sínum og gera áætlanir og fjárfesta á þeim grunni að undirstaða rekstrar þeirra, fiskistofnarnir, verði öflugir og nýtanlegir til allrar framtíðar. Á þessum grunni verður þróun í nýtingu afurða og til verða nýjar afurðir og verðmeiri en áður. Það verða framfarir í tækni og þekkingu sem enn skapar arð. Þetta gerist ekki nema vegna þess að við séum samtíga um þann grunn sem allt byggir á.

Fiskveiðistjórnunarkerfi okkar er byggt á rústum fyrra fyrirkomulags sem byggðist á of stórum flota og ofveiði og það skilaði litlum arði fyrir þjóðarbúið. Lykillinn að arðsemi núverandi fyrirkomulags byggir á sjálfbærni og umhverfisvernd. Við eigum að halda áfram á þessari braut því þetta eru ekki andstæðir pólar heldur sitthvor hliðin á sama peningnum.

Markmið auðlindanýtingar þurfa að vera skýr og leikreglur ljósar. Stefna Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er að byggja á sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar en meginstoðir hennar eru; árangursríkt stjórnkerfi, öflugar rannsóknir og þróun vísinda. 

Þó við stöndum hér á þessum tímamótum og fögnum því sem vel hefur verið gert og leyfum okkur að klappa hverju öðru á bakið megum við ekki leyfa okkur að halda að verkinu sé lokið, að við höfum höndlað sannleikann og að nú getum við hallað okkur aftur og notið.

Við verðum að halda áfram að vera í fremstu röð og það krefst langtímasýnar, hugmyndaauðgi og þekkingar. Þessa þætti er ekki hægt að panta, þeir koma úr takmörkuðu auðlindinni mannauðinum. Mannauði sem við höfum hingað til verið svo lánsöm að geta virkjað í þágu sjávarútvegsins bæði innan greinarinnar og ekki síður innan Hafrannsóknastofnunar.

Við þurfum að skara fram úr á alþjóðavettvangi til að viðhalda sérstöðu okkar sem framleiðendur fyrsta flokks afurða. Við þurfum að tengja skólakerfið betur við atvinnugreinina til að laða að færasta fólkið, byggja framþróun áfram á þekkingu og viðhalda því orðspori sem Íslendingar hafa skapað sér á alþjóðlegum mörkuðum. Við byggjum á takmörkuðum auðlindum og þurfum að hlúa að þeim – hafinu og mannauðnum.

 

Vinnum áfram að því að vera leiðandi í heiminum

Íslendingar búa yfir mikilli þekkingu á sjávarútvegi, hafa verið brautryðjendur í fiskveiðistjórnun og eiga áfram að vinna að því að vera leiðandi á þessu sviði í heiminum.

Til þess þurfum við að gefa í og taka hlutverk okkar alvarlega, sérstaklega þegar kemur að hafrannsóknum.

  • Gera þarf enn meira og enn betur á sviði fiskveiðiráðgjafar þannig að hún nái með markvissum hætti til mun fleiri fiskistofna. Með þessu móti mætti bæta nýtingu þessara fiskistofna, styrkja stöðu afurða á markaði og auka verðmætasköpun.
  • Standa þarf með öflugri hætti að mælingum á magni uppsjávarfiski í íslenskri lögsögu, en skortur á slíkum mæligögnum hefur óumflýjanlega áhrif á samningsstöðu Íslands á vettvangi strandríkja.
  • Ör þróun í alþjóðasamningum og viðmiðum varðandi vistkerfisnálgun er nýtt áherslusvið þessarar aldar,  til viðbótar við hefðbundin sjónarmið um sjálfbæra nýtingu fiskistofna.
  • Leggja þarf mun meiri áherslu á rannsóknir á starfsemi vistkerfis sjávar og kanna betur áhrif fiskveiða á vistkerfið.
  • Mun meiri rannsókna er þörf á áhrifum loftslagsbreytinga á lífríki hafsins, málefni sem nú er mjög í deiglunni.
  • Margt fleira mætti nefna

Ekki má sofna á verðinum. Ofangreindir þættir og margir aðrir kalla á nýja hugsun og gera kröfu til eflingar og endurskipulagningar hafrannsókna. 

Með því að spara aurinn þegar kemur að hafrannsóknum erum við bókstaflega að kasta krónunni. Þeir hagsmunir sem eru undir eru slíkir að það er ekki í boði fyrir þjóð sem byggir afkomu sína á sjávarútvegi að ekki séu til fjármunir til að sinna rannsóknum til að tryggja að Ísland verði áfram leiðandi í heiminum þegar kemur að sjávarútvegi.

Gleðjumst því nú yfir því sem vel er gert, því það er svo sannarlega margt ... og tökum svo til hendinni við að efla enn og auka hafrannsóknir á Íslandsmiðum.“

 

Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi

Viðburðir